Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skólabörnum fjölgað um þriðjung

07.01.2022 - 11:27
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Íbúum með fasta búsetu í Hrísey hefur fjölgað undanfarin ár og einnig börnum á skólaaldri um ríflega þriðjung á rúmu ári. Kennari segir fjölgunina breytingu til batnaðar en íbúðaskortur standi í vegi fyrir að fleiri flytji út í eyna.

Fjölgaði um 8 börn á leikskólanum

Um 1980 voru rúmlega fimmtíu börn í skólanum í Hrísey. Upp úr því fór þeim smám saman fækkandi og frá því frystihúsinu var lokað um aldamótin varð fækkunin hraðari. Fæstir voru nemendur veturinn 2017 og 2018 eða aðeins ellefu. Enginn var á leikskóladeildinni fyrir rúmu ári.

Þórunn Björg Arnórsdóttir, skólastjóri Hríseyjarskóla segir að fjölgunin hafi gerst á skömmum tíma. „Það fjölgaði hjá okkar um þrjá nemendur í desember þannig að nú er komnir 17 nemendur í grunnskólann og það eru 8 börn á leikskólanum. Í nóvember í fyrra þá þurftum við að bregðast hratt við og opna leikskóladeildina því það voru allt í einu komin 8 börn sem vantaði leikskólapláss.“

Húsnæðisskortur hefur þó staðið frekari íbúafjölgun fyrir þrifum en ekki hefur verið byggt íbúðarhúsnæði í Hrísey í tæp 30 ár. 

Þórunn segir það ekki einfallt að fá nýtt fólk til starfa við skólann. „Það er alla vega erfitt ef það væri einhver fjölskylda sem vildi koma og fara að vinna hérna hjá okkur, þá er erfitt að finna húsnæði fyrir hana í dag.“

„Mættu vera fleiri“

Hrund Teitsdóttir, kennari í Hríseyjarskóla finnur fyrir mikilli breytingu í skólanum þegar fjölgar þar börnum. „Já, bara við að það fjölgi um einn þá snýst allt kerfið við.  Þetta er breyting til batnaðar og gaman að fá fleiri. En það er mikil breyting. Við erum hérna í stóru húsnæði og maður er farinn að leita að nýju og nýju rými til þess að leyfa nemendum að vera á.“

Anna María Antonsdóttir, nemandi í 9. bekk í skólanum segir það vera fínt að fá fleiri krakka í skólann. „Þeir mættu koma fleiri. Við erum núna fleiri í stofu, vorum alltaf bara sex en erum en núna erum við orðin ellefu eða eitthvað.“

Anna María segir að það fari eftir dögum hvort það fara eftir dögum hvort það sé betra eða verra að hafa fleiri krakka í bekknum. 

Heimir Sigurpáll Árnason er einnig nemandi í 9. bekk en hann kom nýr inn í skólann í desember. Hann segir að það sé mjög sérstakt að koma úr fjölmennum bekk á Akureyri og í fámennið í Hrísey. Hann segir að það sé líka skemmtileg breyting.