Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nokkrar konur gætu gefið skýrslu í máli Ingólfs

06.01.2022 - 09:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það eru nokkrar konur sem hafa sett sig í samband við mig og lýst áreiti eða kynferðislegum samskiptum þegar þær voru 15 til 18 ára. Við erum að skoða hvort þær beri vitni í málinu. Það veltur auðvitað á þeim,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Sindra Þórs Hilmars-Sigríðarsonar, sem tónlistamaðurinn Ingólfur Þórarinsson hefur stefnt fyrir meiðyrði.

Í stefnunni er þess krafist að fimm ummæli Sindra Þórs verði dæmd dauð og ómerk og honum gert að greiða Ingólfi þrjár milljónir króna í miskabætur.

Til stóð að fyrirtaka í málinu færi fram á morgun, föstudag, en henni var frestað til 18. janúar þar sem annar af lögmönnunum í málinu þurfti að fara í sóttkví.

Í stefnu Ingólfs, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að hann hafi snemma byrjað að skemmta sem trúbador og síðar orðið þjóðþekktur þegar hann náði 6. sæti í Idol-stjörnuleitinni, þá 19 ára. 

Hann hafi starfað sem tónlistarmaður í tæpa tvo áratugi, verið afar farsæll og aldrei verið sakaður um nokkuð misjafnt eða ólöglegt. Það hafi því komið honum mjög á óvart þegar nafnlausar sögur hafi verið birtar á Tiktok-reikningi baráttusamtakanna Öfga þar sem greint hafi verið frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu „ákveðins veðurguðs“. Alþekkt sé að hann gangi undir listamannsnafninu Ingó veðurguð.

Ingólfur segist í framhaldinu hafa lýst yfir sakleysi sínu enda hafi hann ekki nauðgað konu, beitt annars konar ofbeldi eða áreitt kynferðislega og þaðan af síður börn eins og látið hafi verið að liggja í frásögnunum. Þetta hafi verið tilhæfulausar ásakanir og hann segist í stefnunni hafa upplifað framgöngu Öfga sem árás gegn honum.

Ingólfur telur að Sindri Þór hafi með ummælum sínum gefið honum að sök refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi sem sé virðingu hans til hnekkis. Ummælin fimm, sem stefnt sé fyrir, séu keimlík og snúi að því að hann hafi gerst sekur um að hafa samræði við börn.  

Ingólfur segist vera með hreinan sakaferil, hafi aldrei fengið á sig kæru og lögregla aldrei verið með til rannsóknar mál sem varði hann. Þá hafi ekkert barn eða foreldri barns sakað hann um að hafa haft samræði við barn. Sindri hafi ekki sýnt neina eftirsjá og farið út fyrir mörk stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis með því að ráðast gegn æru hans með þessum hætti.

Fréttastofa hefur einnig greinargerð Sindra Þórs í málinu. Þar segir hann að frá árinu 2005 hafi verið í gangi háværar sögusagnir um siðferðislega ámælisverða og jafnvel ólöglega kynferðislega hegðun Ingólfs. Þær hafi verið svo útbreiddar að útilokað sé að Ingólfur hafi ekki orðið þeirra var. 

Rifjar Sindri meðal annars upp grínatriði með Steinda Jr. í þættinum Monitor árið 2009. Í atriðinu á Steindi að vera pyntaður af Kiefer Sutherland til upplýsingagjafar og segir meðal annars: „„Ingó – Ingó Veðurguð. Veistu hver það er? Það vita flestir hver hann er. Hann er alltaf edrú. Hann er alltaf edrú í bænum bara – með einhverjum kornungum stelpum! Alveg ógeðslega ungum stelpum! Alltof ungum stelpum! “

Sindri bendir einnig á umræðu á spjallsvæðinu Bland sem hann segir vera um Ingólf þótt hann sé aldrei nafngreindur þar.

Sindri segist hafa sett ummæli sín fram í góðri trú, enginn ásetningur hafi staðið til þess að staðhæfa nokkuð um refsiverða háttsemi Ingólfs og ekkert bendi til þess að hann hafi birt ummælin gegn betri vitund né vísvitandi í þeim tilgangi að skaða orðspor Ingólfs. 

Ummælin hafi verið liður í mikilvægri þjóðfélagsumræðu. Með þeim hafi hann viljað benda á þá staðreynd, sem honum hafi sjálfum þótt fráleit: „að refsilaust væri fyrir fullorðið fólk á miðjum aldri að „ríða börnum“.“  Hegðun sem Sindri segir að Ingólfur hafi óumdeilanlega gerst sekur um „þótt hún sé refsilaus samkvæmt íslenskum lögum,“ eins og það er orðað í greinagerðinni.