Bikarúrslitin í körfubolta verða spiluð í mars

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Bikarúrslitin í körfubolta verða spiluð í mars

05.01.2022 - 10:27
Körfuknattleikssamband Íslands tók þá ákvörðun á fundi í morgun að færa úrslitakeppni VÍS-bikarsins vegna fjölda kórónuveirusmita. Bikarúrslitin áttu að fara fram í næstu viku en verða nú spiluð í mars.

Í tilkynningu frá KKÍ segir að þetta sé gert í ljósi þess fjölda einstaklinga sem nú eru í sóttkví og einangrun. „Sú smitbylgja sem nú gengur yfir hefur þegar haft talsverð áhrif á mótahaldið en hundruðir einstaklinga eru þátttakendur í VÍS bikarvikunni,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Áfram stendur til að spila bikarúrslitin í Smáranum í Kópavogi en Laugardalshöllin verður ekki tilbúin í mars. Undanúrslit karla verða 16. mars og undanúrslit kvenna 17. mars. Úrslit yngri flokka verða spiluð 18.-20. mars og úrslit meistaraflokka 19. mars.