Mynd: RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Tíu fangar og lögreglumaður féllu við flóttatilraun
04.01.2022 - 01:57
Tíu fangar og lögreglumaður létust við flóttatilraun úr fangelsi á Haítí á föstudaginn var. Þrír lögreglumenn til viðbótar særðust alvarlega og verða fluttir til Kúbu til læknismeðferðar að sögn talsmanns lögregluyfirvalda.
Um miðjan dag á föstudag reyndi ótilgreindur fjöldi vopnaðra fanga að strjúka úr næststærsta fangelsi landsins, sem er í sveitarfélaginu Croix-des-Bouquets skammt frá höfuðborginni Port-au-Prince.
Fangarnir tóku þrjá lögreglumenn og hjúkrunarfræðing í gíslingu. Á leið sinni gegnum fangelsið gripu flóttamennirnir með sér vopn úr geymslum. Til skotbardaga kom eftir að sérsveit lögreglu skarst í leikinn með framangreindum afleiðingum.
Í febrúar á síðasta ári struku yfir 400 fangar úr sama fangelsinu um hábjartan dag. Þá féllu 25 í valinn, þeirra á meðal framkvæmdastjóri fangelsisins.