Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þingmenn í Hong Kong sóru hollustueiða í morgun

03.01.2022 - 06:26
epa09664083 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam, (C), presides over the oath-taking ceremony for lawmakers at the start of the new legislative session in the main chamber of the Legislative Council in Hong Kong, China, 03 January 2022. 90 lawmakers took turn to swear allegiance to the Hong Kong SAR and the Basic Law during the ceremony.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nýkjörnir fulltrúar héraðsþings Hong Kong sóru í morgun hollustueiða við hátíðlega athöfn. Ný ákvæði kosningalaga leyfa aðeins „föðurlandsvinum“ að gefa kost á sér og því sitja nánast engir stjórnarandstæðingar á þinginu.

 

Aðeins einn nýju þingmannanna, Tik Chi-yuen, lítur ekki á sig sem fylgismann stjórnvalda í Kína. Hann tilheyrir þó ekki heldur hefðbundnum hópi lýðræðissinna í borginni. Flestir þeirra sitja í fangelsi, eru í sjálfskipaðri útlegð eða hafa látið af stjórnmálaafskiptum.

Lýðræðissinnar og stjórnarandstæðingar hvöttu almenning til að sniðganga þingkosningarnar 19. desember. Kjörsókn reyndist rúm þrjátíu prósent sem er helmingur þess sem var í kosningum árið 2016.

Carrie Lam, æðsti stjórnandi borgarinnar, stýrði athöfninni. Stjórn borgarinnar þarf ekki að glíma við háværa stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Á þessu ári velur 1.500 manna kjörnefnd næsta leiðtoga Hong Kong sem Kínastjórn síðan staðfestir.

Sú nefnd kaus 40 af 90 þingmönnum, hagsmunahópar 30 en aðeins 20 voru kosnir beinni kosningu. Stjórnvöld í Hong Kong umbáru háværa andstöðu um nokkurt skeið eftir að Kínverjar tóku við stjórninni af Bretum árið 1997.

Þingmenn fögnuðu áhlaupi á lýðræðissinnaðan fjölmiðil

Mikil mótmæli brutust út fyrir tveimur árum, sem Kínastjórn braut á bak aftur að mestu og setti á öryggislög sem gera allan mótþróa ólöglegan ásamt kerfi þar sem aðeins þeir sem taldir eru trúir Kína geta gefið kost á sér til embætta.

Það var gert þrátt fyrir loforð um að borgin héldi frelsi og ákveðnu fullveldi í 50 ár eftir yfirtökuna. Kínastjórn segir nýtt stjórnmálakerfi Hong Kong eigi að tryggja jafnvægi en segist þó enn umbera pólítískan fjölbreytileika.

Í síðustu viku birtu allir þingmenn nema Tik Chi-yuen sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst var stuðningi við áhlaup öryggislögreglu á stjórnarandstöðufréttamiðilinn Stand News í síðustu viku og handtökur helstu starfsmanna hans.