Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Utanríkismálin mættu afgangi í nýársávarpi Kim

01.01.2022 - 10:53
epa07495547 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over an enlarged meeting of the Political Bureau of the Central Committee of the Workers' Party of Korea (WPK), at the office building of the Central Committee of the WPK in Pyongyang, North Korea, 09 April 2019 (issued 10 April 2019).  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Mynd: EPA-EFE - KCNA
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, minntist ekkert á kjarnorkuvopn og lítið á utanríkismál í nýársávarpi sínu. Leiðtoginn hefur jafnan nýtt ávarpið til stórra yfirlýsinga um samskipti landsins við umheiminn.

Utanríkismálin áberandi áður

Tíu ár eru nú liðin frá því Kim tók við embætti. Hefur undanfarinn áratugur einna helst einkennst af annars vegar kjarnorkutilraunum og hins vegar leiðtogafundum og samningaviðræðum við Bandaríkin og Suður-Kóreu. 

Það var einmitt í nýársávarpi árið 2018 sem Kim talaði sérstaklega um bætt samskipti við grannríkið í suðri og tóku Norður-Kóreumenn í kjölfarið þátt á Ólympíuleikunum í Pyeongchang.

Utanríkismálin voru hins vegar ekki fyrirferðarmikil í ávarpi Kim í dag, minntist hann til að mynda ekki einu orði á Bandaríkin og lítið á samskiptin við Suður-Kóreu.

Erfið staða heima

Þess í stað ræddi Kim nær eingöngu um erfiða stöðu heima fyrir og talaði um að ríkið standi frammi fyrir baráttu upp á líf og dauða.

Staða norðurkóreska hagkerfisins er sögð afar slæm og hafa alþjóðleg hjálparsamtök varað við miklum matarskorti í landinu.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið landið grátt og talaði Kim um nauðsyn þess að innleiða nýja fimm ára áætlun til að auka lífsgæði landsmanna.

Þórgnýr Einar Albertsson