Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Forsetar Bandaríkjanna og Úkraínu ræða saman á morgun

epa09660970 A handout photo made available by the White House showing US President Joe Biden speaking on the phone with Russian President Vladimir Putin on the phone from his residence in Wilmington, Delaware, USA, 30 December 2021. Biden spoke with Putin about deescalating the tension with Ukraine.  EPA-EFE/Adam Schultz / The White House / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - The White House
Joe Biden Bandaríkjaforseti og úkraínskur kollegi hans Volodymyr Zelensky ætla að ræða saman í síma á morgun sunnudag. Rúm vika er í að samningaviðræður hefjist vegna þeirrar spennu sem ríkir við landamæri Úkraínu.

Samtal þeirra kemur í kjölfar viðræðna Bidens og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta vegna fjölmenns liðsafnaðar Rússa við austurlandamærin að Úkraínu.

Samtal Bidens og Pútíns hafði það að markmiði að finna leiðir að diplómatískri lausn vegna þeirrar spennu sem myndast vegna þess. Að loknu samtalinu kváðust báðir reiðubúnir að leysa deiluna við samningaborðið.

Vesturveldin ásaka Rússa um að ætla sér að gera innrás sem Pútín segir af og frá. Stjórnvöld í Kreml fullyrða að rússnesku hermennirnir séu við landamærin til að verjast útþenslu Atlantshafsbandalagsins. Úkraínu hefur þó ekki verið boðin aðild þrátt fyrir umsóknir þess efnis. 

Embættismaður í Hvíta húsinu staðfestir að ætlun Bidens og Zelenzky sé að ræða stuðning Bandaríkjastjórnar við fullveldi Úkraínu og yfirráð þeirra yfir eigin landsvæði.

Einnig hyggjast þeir ræða liðsafnað Rússa og þær diplómatísku viðræður sem framundan eru í þeim tilgangi að draga úr spennunni á svæðinu. Ákveðið hefur verið að sendinefndir fundi 10. janúar um leiðir til lausnar deilunni. 

Þar verða fulltrúa Bandaríkjanna og Rússlands ásamt sendimönnum Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir bandalagsríkin sameinuð í afstöðu sinni og reiðbúin til viðræðna.

Biden varaði Pútín við alvarlegum afleiðingum þess ef kæmi til innrásar. Beitt yrði hörðum viðskiptaþvingunum og herstyrkur Bandaríkjanna aukinn innan bandalagsríkja þeirra í Evrópu.