
Ákærur gegn fangavörðum Epsteins felldar niður
Fangaverðirnir, þau Tova Noel og Michael Thomas, viðurkenndu að hafa falsað pappíra svo liti út fyrir að þau hefðu réttilega talið fanga nóttina sem Epstein lést. Réttarmeinafræðingur í New York ríki úrskurðaði að Epstein hefði fyrirfarið sér.
Fangaverðirnir voru ákærðir í nóvember 2019 fyrir vanrækslu og sinntu samfélagsþjónustu en höfðu lokið þeim skyldum sínum þegar ákvörðunin var tekin.
Degi áður var Ghislaine Maxwell sakfelld fyrir að hafa tælt ungar stúlkur sem Epstein svo misnotaði á tíu ára tímabili. Hún gæti átt yfir höfði sér áratugalanga fangavist en hún varð sextug á jóladag.
Enn hefur ekki verið tilkynnt um hvenær refsing hennar verður ákveðin. Kevin Maxwell bróðir hennar kveðst sannfærður um sakleysi systur sinnar og að dómi hennar verði snúið fyrir áfrýjunardómstóli.
Hann kveðst þess hins vegar fullviss að Epstein hafi verið sekur um þá glæpi sem hann var ákærður fyrir, kynlífsmansal og nauðganir.