Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Tilfinningar eru delluvari“

Mynd: Samsett / Samsett

„Tilfinningar eru delluvari“

25.12.2021 - 09:00

Höfundar

Tilfinningar koma í veg fyrir stórslys sagði Guðmundur Páll Ólafsson, frumkvöðull í náttúruvernd, eitt sinn. Hann féll frá fyrir nokkru en hefði orðið 80 ára á árinu.

Guðmundur Páll Ólafsson var náttúrufræðingur, rithöfundur, ljósmyndari og brautryðjandi í íslenskri náttúruvernd. Hann fæddist árið 1941 á Húsavík, lést árið 2012 en hefði orðið 80 ára í ár. Af því tilefni er horft yfir farinn veg í þættinum Skurðir í náttúru Íslands, þar sem einstök sýn hans á náttúru Íslands er rifjuð upp.           

Í þættinum, sem er á dagskrá Rásar 1 á jóladag, taka til máls fimm nánir vinir og samstarfsmenn hans. Þeir deila minningum af ferðalögum, sjónarmiðum Guðmundar í náttúruvernd og kjarnanum í náttúruspeki hans.

Meðal þeirra er María Ellingsen, leikkona. „Guðmundur var alltaf að kenna og setja fólk í tengsl við stóru myndina,“ segir hún. „Með því kviknar ást á baráttunni. Um leið og maður skilur eitthvað að þá tengist maður því og þá vill maður varðveita það og þá er maður tilbúinn að berjast fyrir því.“ Hún rifjar upp orð sem hann hafði eftir Baba Diom, afrískum fræðimanni, og voru grundvallaratriði í sýn Guðmundar. „Þegar allt kemur til alls varðveitum við aðeins það sem við elskum, við munum elska aðeins það sem við skiljum, við munum aðeins skilja það sem okkur er kennt. Þetta var grundvallaratriði. Guðmundur gaf alltaf kredit, þótt þetta hafi verið gert að hans orðum, að þá gaf hann alltaf sjálfur kredit þeim sem hafði hugsað á undan honum.“

Hún segir að oft hafi verið gert lítið úr sjónarmiðum náttúruverndarsinna, fyrir þeim væri þetta bara rakalaust tilfinningamál. „Guðmundur skammaðist sín ekki fyrir að hafa tilfinningar. Hann sagði að ef þú ert ekki með tilfinninguna, þá ertu ekki með neitt. Ef þú ert ekki með tenginguna við hjartað og skilninginn sem býr til þessa tengingu, þá ertu ekki með neitt.“

Í þættinum hljóma brot úr þætti Sigrúnar Björnsdóttur frá 2002 sem nefnist Maður og náttúra. Þar ræddi Guðmundur um mikilvægi tilfinninga í sambandi fólks við náttúruna.  „Tilfinningar eru eins konar delluvari á framkvæmdir. Þér þykir vænt um land. Þú ert ástfanginn af því, þú ert hrifinn af því vegna þess það snertir ákveðna strengi í þér eða þá að þú hefur alist upp við það og haft lifibrauð af því. Tilfinningar koma í veg fyrir stórslys, vegna þess að þú sérð að þarna er eitthvað ógnvænlegt í gangi. Tilfinningin þín segir að þú mátt ekki gera þetta, þess vegna er hún delluvari. Þess vegna hef ég sagt, þeir sem taka þennan delluvara úr sambandi, þeir eru hættulegir og hættulegir umhverfinu. Við verðum að hafa tilfinningar í viðhorfi okkar gagnvart náttúrunni. Ef við tökum tilfinningarnar út úr samhenginu, þá erum við að segja að það skipti ekkert máli lengur. Það er hættan.“

Tómas Ævar Ólafsson ræðir við vini og samstarfsmenn Guðmundar Páls Ólafssonar í þættinum Skurðir í náttúru Íslands. Hugað er sérstaklega að náttúruspeki hans og viðhorfum í náttúruvernd. En þar eru hugtök á borð við græna orku, blettafriðun og sjálfbærni gaumgæfð sérstaklega. Viðmælendur í þættinum eru Rúrí, María Ellingsen, Andri Snær Magnason, Jóhann Ísberg og Guðmundur Andri Thorsson. Þátturinn er á dagskrá Rásar 1 á jóladag klukkan 13:00.