Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir omíkron fara um Evrópu á ljóshraða

18.12.2021 - 08:50
epa08432461 French government "deconfinement" coordinator Jean Castex leaves after a videoconference with the French President and French mayors at the Elysee Palace in Paris after the country began a gradual end to the nationwide lockdown following the coronavirus disease (COVID-19) outbreak in France, 19 May 2020.  EPA-EFE/GONZALO FUENTES / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - Reuters
Það er sem omíkron afbrigði kórónuveirunnar dreifist um Evrópu á ljóshraða, sagði Jean Castex forsætisráðherra Frakklands, þegar hann kynnti hertar sóttvarnareglur í Frakklandi í gærkvöld. Þær tóku gildi á miðnætti og verða í gildi í það minnsta fram yfir áramót, en Castex sagði að líklega yrði omíkron orðið ráðandi afbrigði veirunnar í Evrópu fljótlega á nýju ári.

Omíkrón-afbrigðið breiðist hratt um Evrópu en flest smitin greinast nú í Bretlandi, voru nærri fimmtán þúsund í gær. Yfirvöld í löndum Vestur-Evrópu hafa verið að herða aðgerðir síðustu daga eða tilkynna að nýjar reglur taki gildi fyrir jól. Flest hafa ríkin hert aðgerðir á landamærunum en það virðist litlu skila því smitum er þegar farið að fjölga hratt innan þessara landa. Ítalir, Grikkir og Portúgalar hertu aðgerðir á landamærunum í vikunni en mest áhrif hafa aðgerðir sem beinast að daglegu lífi fólks. Breska ríkisútvarpið tekur saman aðgerðir í nokkrum evrópuríkjum á vef sínum í dag. 

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti um hertar sóttvarnarráðstafanir í gær. Þar á meðal að leikhúsum, kvikmyndahúsum, söfnum og samkomustöðum verði lokað. Veitingastaðir og krár megi ekki hafa opið lengur en til klukkan ellefu á kvöldin og hætta verði að veita vín klukkan tíu. Tillögurnar verða lagðar fyrir danska Þjóðþingið til staðfestingar og Frederiksen hvatti þingmenn til að samþykkja þær einróma og sýna þannig í verki stuðning við baráttuna gegn farsóttinni.