Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Súðbyrðingurinn á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf

Mynd með færslu
 Mynd: Vitafélagið - íslensk strandm

Súðbyrðingurinn á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf

14.12.2021 - 17:41

Höfundar

UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, samþykkti í dag að skrá smíði og notkun súðbyrðinga á skrá sína yfir óáþreifanlegan menningararf. Súðbyrðingar eru bátar sem hafa verið notaðir á Norðurlöndum í um tvö þúsund ár og eru sérstök norræn gerð báta.

Súðbyrðingar geta verið breytilegir frá einum stað til annars en smíðaaðferðin er sú sama. Handverkshefðin lýsir sér í því að neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar og svo hver á fætur annarri. Upphaflega voru fjalirnar saumaðar saman, síðar festar með trénöglum og enn síðar járn- og koparnöglum. Norðurlöndin stóðu sameiginlega að tilnefningu súðbyrðingsins á skrána.

Hugmyndin að því að tilnefna súðbyrðinginn á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf varð til fyrir rúmlega hálfum áratug í samstarfi norrænna strandmenningarsamtaka um strandmenningarhátíðir sem haldnar voru víða á Norðurlöndum. Þá var farið að ræða hvað þjóðirnar og svæðin ættu sameiginlegt og úr varð að súðbyrðingurinn var tilnefndur á skrá UNESCO. Yfir 200 samtök undirrituðu tilnefninguna og stjórnvöld í ríkjunum studdu hana.

Vilja lyfta strandmenningunni á verðugan stall

Hérlendis hefur Vitafélagið - íslensk strandmenning borið hitann og þungann af tilnefningunni og segir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður félagsins, tíðindunum vera vel fagnað. „Við vonum svo sannarlega að þetta verði til þess að lyfta strandmenningunni á þann stall sem hún á að vera og á skilið og að við lærum að þekkja betur eigin sögu og menningu og nýta strandmenninguna til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar út um allt land.“

„Þetta eru svo gamlar vinnuaðferðir og hefðir í kringum smíðina. Þetta er samnorrænt, sama aðferðin sem notuð er alls staðar og verkþekking sem virkilega er vert að kunna og bera áfram til komandi kynslóða,“ segir Sigurbjörg aðspurð hvers vegna mikilvægt hafi verið að fá handverk og notkun súðbyrðingsins skráð á lista UNESCO. Hún segir mikinn áhuga á bátasmíðanámskeiðum sem boðið hefur verið upp á og hafi þau fyllst á skömmum tíma. Sigurbjörg vonar að boðið verði upp á bátasmíði í skólum. Að auki segir hún að þjóð sem leggi mikla áherslu á ferðaþjónustu eigi að halda menningararfi sínum á lofti.

Tvær skrár

UNESCO heldur úti tveimur skrám. Annars vegar er listinn yfir heimsminjar, þar sem Þingvelli er meðal annars að finna. Hinn listinn snýr að óáþreifanlegum menningararfi, sem getur falið í sér munnlega geymd, siði, hefðir og athafnir auk þekkingar eins og smíðalist. Þar er súðbyrðingurinn fyrsti menningararfurinn sem tengist Íslandi til að verða skráður á listann.

Leiðrétt: Í upphaflegri gerð var talað um súðbyrðinga sem árabáta en þeir gátu líka verið knúnir áfram með seglum eða vélum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Breiðfirskur súðbyrðingur standsettur og fer á sjó á ný