Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Helgafellssveit og Stykkishólmsbær stefna að sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Nágrannasveitarfélögin Stykkishólmsbær og Helgafellssveit hefja nú formlegar sameiningarviðræður. Stefnt er að íbúakosningu um sameiningu sveitarfélaganna í mars á næsta ári.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti að hefja formlegar sameiningaviðræður í gær, en samþykki Helgafellssveitar lá þá þegar fyrir. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að nú muni samstarfsnefnd um viðræðurnar hefja undirbúningsvinnu. 

„Sem endar síðan með því að íbúar þessara beggja sveitarfélaga taka ákvörðun um sameininguna næsta vor, sennilega í mars 2022.“

Þá verði kosið til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi í maí á næsta ári. Sameinað sveitarfélag mun telja um tólf hundruð og fimmtíu íbúa. En í Stykkishólmi búa 1196 og í Helgafellssveit 66. 

Náið samstarf einfaldar sameiningaferlið

Sex hundruð milljónir koma frá ríkinu við sameininguna sem Jakob segir að muni til dæmis nýtast til innviðauppbyggingar. Sveitarfélögin sem eru nágrannar eiga þegar í nánu samstarfi sem einfaldar ferlið. Þau reka saman skóla og slökkvilið og eiga sömuleiðis í samstarfi um skipulags-, byggingar- og félagsmál.

Sveitarfélögin hafa þó átt í öðrum óformlegum viðræðum við Dalamenn síðustu mánuði. Eins hefur Grundarfjarðarbær boðið til fundar um mögulega stóra sameiningu alls Snæfellsness. Jakob segir þessa kosti ekki af borðinu.

„Það eru bara þreifingar sem munu halda áfram geri ég ráð fyrir.“ 

Slíkar stærri sameiningar taki hins vegar lengri tíma eða um tvö ár. Hægt verði því að ljúka sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar áður en að því kæmi.