Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vill halda oddvitasætinu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Eyþór Arnalds segist fagna því að fólk vilji leiða Sjálfstæðisflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Hildur Björnsdóttir tilkynnti í gær að hún ætlaði að bjóða sig fram til að leiða listann en hún skipaði annað sæti flokksins í síðustu kosningum.

Eyþór lætur engan bilbug á sér finna þó Hildur ætli að fara á móti honum og segir samstarf þeirra hafa gengið að mestu vel á þessu kjörtímabili. Hann segist fanga því að hún vilji áfram vinna fyrir flokkinn í borgarstjórn.

„ Þetta er ekki óvænt, það er bara fagnaðarefni ef að fólk vill gefa kost á sér til að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni og ef enginn hefði áhuga á að gera það hefði ég meiri áhyggjur. Það er nú hefðin að það bjóði sig fram fleiri en einn og þannig var það síðast. Það voru fimm sem kepptu um að leiða listann síðast og það var bara spennandi barátta sem fór vel,“ segir Eyþór.

Aðspurður segist hann telja sig rétta manninn til að leiða flokkinn áfram því vel hafi gengið í síðustu kosningum. „Ja hann var langstærsti flokkurinn í síðustu kosningum og ég ætla mér að leiða hann í að vera stærsti flokkurinn aftur. Hann er hreyfiaflið sem getur breytt, þannig að við förum úr því að vera með meirihluta fjögurra ólíkra flokka yfir í að fara í þær framfarir sem við þurfum að fara í. Það er enginn annar flokkur sem hefur burði í að breyta nema við.“
 

Eyþór segir að taka þurfi á ýmsum málum í borginni og mun hann meðal annars leggja áherslu á að leysa umferðarhnúta og stuðla að því að ný íbúðahverfi verði skipulögð. „Flokksmenn velja oddvitann og aðra á listanum, trúi ég þannig að eigum við ekki að leyfa Sjálfstæðismönnum að ráða hvernig þeir vilja hafa þetta,“ segir Eyþór að lokum.