Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Við erum að horfa á endurfæðingu barns okkar“

Mynd: Víðsjá / RÚV

„Við erum að horfa á endurfæðingu barns okkar“

09.12.2021 - 13:20

Höfundar

Höfundar sápuóperunnar Santa Barbara eru dolfallnir yfir framtaki Ragnars Kjartanssonar listamanns, sem opnað hefur sýningu í Moskvu helgaða þáttunum.

Ragnar Kjartansson opnaði um helgina, í listamiðstöðinni GES-2 í höfuðborg Rússlands, stóra sýningu á eigin verkum og annarra sem heitir Til Moskvu! Til Moskvu! Til Moskvu! Sýningunni stýrir hann ásamt konu sinni, Ingibjörgu Sigurjónsdóttur, þar sem lifandi skúlptúrinn Santa Barbara er fyrirferðarmestur. Stór hópur listafólks framleiðir þar, undir yfirstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur leikstjóra, einn þátt af sápuóperunni Santa Barbara á degi hverjum vel fram á vor.

Höfundar Santa Barbara, Bridget og Jerome Dobson, ferðuðust til Moskvu í tilefni sýningarinnar. Santa Barbara var sýnd víða um heim á níunda áratugnum og eru hjónin goðsagnir í heimi sápuóperunnar. Guðni Tómasson, sem er staddur í Moskvu, ræddi við þau um sýninguna. Þau eru bæði agndofa yfir framtaki listamannsins íslenska og ljóst að það var tilfinningarík stund fyrir þau þegar þau börðu verkið augum.

„Þetta er unnið af fagmennsku og minnir á dagana okkar í NBC-myndverinu á sínum tíma,“ segir Jerome. Hann hælir líka leikurunum og segir þá frábærlega vel valda í hlutverk sín og hæfileikaríka. Þau hjónin eru sammála um það að þetta sé eins og að horfa á endurfæðingu barnsins síns. Það rifjast allt upp þegar þættirnir lifna við með þessum hætti. Þau muna jafnvel eftir því þegar þau skrifuðu senurnar sem er verið að leika hér mörgum árum síðar. Þau þekkja sitt eigið handbragð og efni vel og átökin við að koma þáttunum saman hér í eina tíð rifjast upp.

Ragnar Kjartansson ásamt Bridget og Jerome Dobson, höfunda sápuóperunnar Santa Barbara, við opnun samnefndrar sýningar í Moskvu.
 Mynd: Víðsjá - RÚV
Bridget Dobson, annar höfunda Santa Barbara, felldi tár á sýningunni.

Þau urðu líka yfir sig hissa á því að Ragnar, íslenskur myndlistarmaður, brjálæðingurinn á hælinu eins og Jerome Dobson kallar hann, hafi ætlað að taka sér þetta fyrir hendur í Moskvu. Þau eru hrifin af hugmyndaauðgi og bralli listamannsins íslenska.

„Við vissum að það yrði áhugavert að hitta hann og styðja við hann. Því ef þú styður ekki við bakið á brjálæðingi þá er hann líklegur til að ganga berserksgang. Og sjáið hvað hann hefur skapað – þetta er undravert,“ segir Jerome.

„Við töldum þetta vera ómögulegt þegar hann sagði okkur fyrst frá þessu,“ segir Bridget. „Þetta er ótrúlegt.“

Þótt leikhópurinn sé rússneskur og fari með línur sínar á móðurmálinu þekkja þau hvert orð. „Við kunnum þetta allt utan að, er það ekki?“ spyr Bridget eiginmann sinn í lokin.

Sýning Ragnars Kjartanssonar, Santa Barbara, í Moskvu.
 Mynd: Víðsjá - RÚV

Tengdar fréttir

Myndlist

Pabbi Ragnars sagði honum að vara sig á Santa Barbara

Myndlist

Ragnar Kjartans setur upp sápuóperu í Moskvu