„Það var aldrei tékkað á honum, hann deyr úr magasári“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það var aldrei tékkað á honum, hann deyr úr magasári“

09.12.2021 - 13:00

Höfundar

„Ég kynntist Lofti þegar hann var lítill strákur. Hann var frábær drengur, listrænn, hæfileikaríkur og frábær teiknari,“ segir Gunnar Hilmarsson um Loft Gunnarsson mág sinn sem lést á götunni árið 2012 vegna veikinda sem ekki voru meðhöndluð, vegna fordóma í heilbrigðiskerfinu að mati Gunnars.

Gunnar Hilmarsson tónlistarmaður og hönnuður og eiginkona hans Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir hafa um árabil barist fyrir bættum aðbúnaði útigangsfólks. Þau hafa í baráttu sinni stofnað Minningarsjóð Lofts Gunnarssonar til minningar um mág Gunnars sem lést á götunni árið 2012 vegna blæðandi magasárs sem aldrei var meðhöndlað. Á veturna hugsar Gunnar til þess fólks sem á ekkert heimili og ver miklum tíma úti í nístingskulda og mætir víða fordómum. Gunnar er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá á RÚV í kvöld. Þar segir hann skömm vera að því, í ríku velmegunarsamfélagi, að lágmarksmannréttindi séu ekki tryggð hjá þessum hópi fólks.

Hann minnist mágs síns heitins með mikilli hlýju. „Ég kynntist Lofti þegar hann var lítill strákur. Hann var frábær drengur, listrænn, hæfileikaríkur, skemmtilegur og frábær teiknari. En hann var einn af þessum einstaklingum sem tók síðan U-beygju í lífinu og endaði á götunni,“ segir Gunnar. Loftur var rétt rúmlega þrítugur þegar hann hné niður í miðbænum en þá kom í ljós að hann hafði verið lasinn um hríð en ekki fengið þá þjónustu sem hann þurfti. Hann segir að fordómar hafi verið við lýði í heilbrigðiskerfinu þá og þeirra gæti enn. Þeir hafi orðið mági hans að aldurtila. „Það var ekkert tékkað á honum og hann deyr úr magasári sem enginn á þessari öld á að deyja úr. Þetta er eitthvað sem er leyst á einfaldan hátt en þegar hann kemur upp á spítala er ekkert blóð, lífsmörk lág og ekki hægt að höndla einfalda kvilla.“

Þegar fjölskyldan kom á spítalann var þeim brugðið að sjá Loft. Þá var hann á ganginum merktur með límmiða og þeim þótti meðferðin á honum ómanneskjuleg á síðustu stund lífsins. Þegar þau kvörtuðu var hann settur í aðrar og betri aðstæður en lést skömmu síðar. „Þetta var mómentið sem það opnaðist fyrir mér hvernig hlutirnir væru. Það var ekki fyrr en fjölskyldan kemur að fólkið sér að þarna er einstaklingur sem á fjölskyldu, fólk sem elskar hann. Þá breyttist aðeins viðmótið en það var allt of seint,“ rifjar Gunnar upp. „Hann deyr hálftíma, klukkutíma síðar.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræðir við Gunnar Hilmarsson í Okkar á milli sem er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hún kláraði krabbameinsmeðferðina með barn á brjósti“