Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir hraðprófin búin að sanna sig

09.12.2021 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkrir á dag greinast jákvæðir í hraðprófum við COVID-19. Þeir einstaklingar eru svo sendir í PCR-próf þar sem jákvæða niðurstaðan er annað hvort staðfest, eða viðkomandi hafi fengið falska jákvæða niðurstöðu í hraðprófum. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna, segir hraðprófin vera búin að sanna sig.

„Það voru nokkur markmið með þessu. Það var í fyrsta lagi til þess að reyna að búa til öruggari leið til að halda viðburði. Í ljósi þess að greiningargetan á PCR-sýnum var takmarkandi þáttur þá var þessi leið prófuð,“ segir Víðir og bætir við: „Í öðru lagi hefur þetta reynst ágætt líka sem skimun á samfélaginu. Þetta eru ansi mörg próf sem eru tekin í hverri viku. Það sem hefur gerst líka er að það er að greinast fólk í þessum hraðprófum sem er kannski með það lítil einkenni eða engin einkenni að það hefur ekki áttað sig á því.“

Sýnatökur í hraðprófum eru ekki inni í daglegum tölum á covid.is, þar sem aðeins er að finna upplýsingar um PCR-prófin. Víðir segir nokkur þúsund manns fara í hraðpróf á dag, og oft mörg þúsund manns á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum. Margir vilji þá komast á tónleika og aðra menningarviðburði og því gott að geta boðið upp á hraðprófin. „Þegar maður leggur þetta allt saman þá finnst okkur heilmikill árangur af þessu og þetta skiptir bara heilmiklu máli,“ segir Víðir.