Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loðnan streymir á land fyrir austan

09.12.2021 - 12:53
Mynd með færslu
Víkingur AK landaði fyrstu loðnu vertíðarinnar á Vopnafirði Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ágætur kraftur er kominn í loðnuveiðina og skipin koma hvert af öðru í land með afla. Margir hafa beðið lengi eftir loðnu, það er á meðal Seyðfirðingar sem fengu í morgun fyrstu loðnuna í fjögur ár. Allt hráefnið fer í bræðslu og verður ekkert fryst fyrr en eftir áramót enda eru helstu markaðir í Rússlandi lokaðir íslenskum framleiðendum.

Loðnuveiðin fór hægt af stað hjá fyrstu skipum sem fóru til veiða í nóvember. Veiðin byrjaði ekki af krafti fyrr en sjávarútvegsráðherra leyfði veiðar með flottroll undir mánaðamót.

„Menn eru að fá fín hol, sérstaklega á daginn“

Nú er kominn ágætis kraftur í veiðina, segir Baldur Marteinn Einarsson útgerðarstjóri Eskju. „Já, já, við erum alveg farnir að skynja það og veiðin gefur merki til þess. Menn eru að fá fín hol, sérstaklega á daginn, nóttin er frekar döpur. Menn eru að fá kannski 50-70 tonn. Einn og einn hefur kannski slegið upp í 200 á nóttunni. En á daginn eru þetta alveg 3-800 tonn.“

Loðnan er feit og hentar vel til bræðslu

Öll loðnan fer í bræðslu þar sem unnið er úr henni mjöl og lýsi. Bestu markaðir fyrir frysta loðnu á þessum árstíma eru í Rússlandi, en þar var sett viðskiptabann á íslenskar sjávarafurðir árið 2015 og stendur enn. Loðnan hentar þó vel til bræðslu á þessum árstíma, þá er hún hvað feitust og hagstæð fyrir lýsisframleiðslu og það er ágætur markaður fyrir mjöl og lýsi um þessar mundir.

Loðna komin í allar bræðslur frá Þórshöfn til Hornafjarðar

„Veiðin fer öll fram núna, sýnist mér, aðeins norðaustur af Langanesi. Komin í gamla hólfið eins og það er kallað,“ segir Baldur. Og það er fróðlegt að fylgjast með ferðum loðnuskipanna. Níu skip eru á miðunum, tvö á leiðinni með fyrstu loðnuna til Vestmannaeyja og búið að landa á Þórshöfn, Vopnafirði, Eskifirði, Norðfirði, Fáskrúðsfirði og Hornafirði. Í morgun kom Börkur NK svo með fyrstu loðnuna til Seyðisfjarðar, en þar hefur ekki verið tekið á móti loðnu í heil fjögur ár.

„Dauðafæri fyrir okkur hérna fyrir austan“

Og það eru hafnirnar á Austfjörðum sem njóta þess einna best þegar loðnan veiðist á þessum slóðum. „Já, þetta er alveg dauðafæri fyrir okkur hérna fyrir austan. Þetta getur ekki verið betra,“ segir Baldur.