Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Berst af fullri hörku fyrir banni við blóðmerahaldi

09.12.2021 - 09:35
Formaður Flokks fólksins ætlar að berjast af fullri hörku fyrir frumvarpi sínu um bann við blóðmerahaldi sem hún mælti fyrir á Alþingi í gær og gefa ekkert eftir. Hún býst við árásum hagsmunagæsluaðila sem ekki vilji afnema dýraníð.

Fundur hófst á Alþingi um miðjan dag í gær á dagskrárliðnum störf þingsins en þá ræða þingmenn um hvaðeina sem þeim er hugleikið. Þar voru ræddar samgöngur til og frá Vestmannaeyjum, fjárlög og velferðin, skerðingar til öryrkja, raforkuskortur og friðlýsingar en einnig var Angelu Merkel þökkuð valdatíðin. 

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, rifjaði upp blóðmeramálið en yfirlýsing barst frá líftæknifyrirtækinu Ísteka í gær sem hefur ákveðið að rifta samningum við tvo bændur vegna ólíðandi meðferðar hrossa með vísan í myndskeið sem birt var á netinu í síðasta mánuði. Myndskeiðið sýndi umdeilt verklag við blóðtöku úr merum.

Formaður Flokks fólksins mælti í annað sinn fyrir frumvarpi sínu og þingflokks hennar auk tveggja þingmanna Vinstri grænna um bann við blóðmerahaldi. 

„Ég býst við að hér séu hagsmunagæsluaðilar sem berjast gegn því að við getum afnumið þetta dýraníð, það er bara þannig. Það eru miklir peningar í húfi og væntanlega einhverjir sem munu stíga fram og verja þessar misgjörðir gegn fylfullum hryssum, því miður,“ segir Inga Sæland.

Ætlar þú að fara af fullri hörku í þetta mál?

„Algjörlega af fullri hörku, gef ekkert eftir, allt uppi á borðum,“ segir Inga.