Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þúsundir fastar í bílum sínum tímunum saman

08.12.2021 - 03:20
Erlent · Noregur · Evrópa · Samgöngumál · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Anne Wirsching - NRK
Þúsundir hafa setið fastar í mikilli umferðarteppu á sjö kílómetra kafla á E18-hraðbrautinni við Tvedestrand í Ögðum í Suður-Noregi frá því um hádegi í gær. Hraðbrautin er lokuð í báðar áttir en byrjað er að flytja fólk í burtu og færa öðrum teppi og vistir. Á þriðja þúsund bíla sátu fastir þegar mest var.

Teppan myndaðist þegar nokkrir stórir vöruflutningabílar festust eftir að hafa runnið til í hálku. Fjöldi rafmagnsbíla er fastur á brautinni og margir þeirra orðnir rafmagnslausir sem þýðir að ekki er hægt að halda þeim heitum. Kalt er í Suður-Noregi og hefur lögregla hvatt fólk til samhjálpar og biður bílstjóra bifreiða sem enn eru heitir að bjóða öðrum strandaglópum inn í hlýjuna.

Umfangsmiklar hjálpar- og rýmingaraðgerðir

Kjerstin Askholt, lögreglustjóri í Ögðum, segir allt að 2.500 bíla hafa setið fasta þegar mest var. Afar hált er á hraðbrautinni og talsverður snjór. Unnið hefur verið að því að hnika föstum bílum til og rýma þannig færa slóð í báðar áttir, með áherslu á að greiða leið fólks- og fólksflutningabíla.

Vegagerðin, Rauði krossinn, lögregla, þjóðvarðliðar, starfsfólk sveitarfélagsins Tvedestrand og sjálfboðaliðar úr ýmsum félagasamtökum hafa tekið þátt í viðamiklum aðgerðum gærdagsins og næturinnar.

Um hálfþrjúleytið í nótt að staðartíma var aðeins tekið að leysast úr flækjunni að sögn Askholt, sem sagðist bjartsýn á framhaldið. Þó sé ljóst að mikið verk bíði þeirra sem rýma þurfa brautina á miðvikudag svo unnt verði að ryðja hana.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV