Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórólfur vill leggja af standandi hlaðborð

08.12.2021 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nokkrar hópsýkingar covids hafi komið upp í tengslum við standandi jólahlaðborð. Hann segir fyllstu ástæðu til að hvetja alla til að leggja af standandi hlaðborð en afgreiða fólk þess í stað í sæti.

Þetta kemur fram í pistli Þórólfs á vef sóttvarnaryfirvalda. Hann segir að nýgengi covid hafi minnkað hægt og bítandi undanfarna daga og vikur en að enn komi upp hópsýkingar sem hægi á fækkun smita.

Það eru ekki aðeins hópsmit sem greinast eftir standandi jólahlaðborð. Einnig koma upp hópsmit hjá fólki sem hefur dregið að fara í sýnatöku. Þórólfur ítrekar því mikilvægi þess að fólk fari í PCR próf finni það fyrir einhverjum einkennum og haldi sig til hlés þar til niðurstaða liggi fyrir.

Tuttugu hafa greinst með omíkron afbrigði covid og tengjast þau smit öll ferðum frá Nígeríu, Danmörku, Írlandi og Þýskalandi. Innanlandssmit með omíkron tengjast smitinu frá Nígeríu. Átján af 20 smituðum eru bólusettir með tveimur skömmtum og höfðu tveir fengið örvunarskammt. Þórólfur segir að þar sem delta afbrigði covids sé enn í miklum meirihluta hérlendis sé mikilvægt að allir mæti í bólusetningu og þiggi jafnframt örvunarskammt. 

„Það er ljóst að [ómíkron] afbrigðið hefur dreifst víða og líklegt að það fyrir finnist í flestum löndum,“ segir Þórólfur. „Enn er ekki hægt að fullyrða hvort það valdi alvarlegri einkennum en delta afbrigðið og á þessari stundu er ekki ljóst hvort þeir sem fengið hafa COVID-19 eða verið bólusettir séu verndaðir gegn smiti.“