Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísteka riftir samningi við blóðmerabændur

08.12.2021 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Blóðmerar
Líftæknifyritækið Ísteka hefur rift samningi við bændur vegna meðferðar þeirra á hrossum. Efla á eftirlit fyrirtækisins við blóðtöku mera.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arnóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka. Ástæðan er myndskeið sem sýnt var nýlega á vegum alþjóðlegra dýraverndunarsamtaka þar sem ólíðandi aðbúnaður og meðferð mera í blóðtöku var sýnd. Á heimasíðu Ísteka segir að samningum við tvo bændur hafi verið rift, en 119 bændur hafa átt í samstarfi við fyrirtækið um blóðtöku mera.

„Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift. Á árinu 2021 hefur líftæknifyrirtækið Ísteka átt í samstarfi við 119 bændur um blóðgjafir hryssa til lyfjaframleiðslu. Gerðir eru bæði viðskiptasamningar og sérstakir velferðarsamningar við þá alla. Blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er eina búgreinin á Íslandi þar sem slíkir samningar eru regla. Reynslan sýnir að bændur vinna almennt samkvæmt þeim.“ segir í tilkynningunni.

Allar blóðtökur myndaðar

Þá ætlar fyrirtækið einnig að ráðast í umbætur á eftirliti með blóðgjöfum með aukinni fræðslu og þjálfun bænda og fjölga velferðareftirlitsmönnum við blóðgjafir. Þá verður framvegis myndavélaeftirlit með öllum blóðtökum.

„Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki.“ segir í tilkynningunni.