Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Rifta samningum vegna blóðtöku úr merum

08.12.2021 - 12:10
Líftæknifyrirtækið Ísteka riftir samningum við bændur vegna ólíðandi meðferðar hrossa.

 

Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna í Þýskalandi, tók í dag formlega við embætti kanslara. Sextán ára valdatíð Angelu Merkel er lokið. Scholz er sá níundi sem gegnir embættinu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Seðlabankastjóri varar við því að fólk noti hækkandi húsnæðis- og hlutabréfaverð til að steypa sér í skuldir. Slík hegðun sé upphafið af öllum fjármálabólum. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir ekkert athugavert við að hann hafi staðfest friðlýsingu jarðarinnar Dranga í Árneshreppi á næstsíðasta degi sínum sem umhverfisráðherra. Hann lagði áherslu á að gengið yrði frá friðlýsingunni áður en hann færi úr embætti.

Fyrri umræðu um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er lokið á Alþingi. Búist er við að fjárlög og fjárlagatengd mál verði afgreidd frá Alþingi á síðustu dögum ársins. 

Von er á rúmlega sex þúsund manns í örvunarbólusetningu á Akureyri í dag og á morgun. Fólk virðist ekki láta langar raðir í kuldanum á Akureyri stoppa sig því mætingin er góð.  

Forsvarsmenn Geðhjálpar gagnrýna fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar og segja að þar skorti yfirsýn í geðheilbrigðismálum. 

Breiðablik mætir Real Madrid í síðasta heimaleik sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12.20.

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV