Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guterres í einangrun vegna hættu á COVID-19 smiti

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, verður í sóttkví næstu daga þar sem starfsmaður sem hann hafði umgengist töluvert greindist með COVID-19 fyrir skemmstu. Guterres, sem er 72 ára gamall, hefur afboðað komu sína á alla fundi og samkomur sem hann ætlaði sér að sækja í eigin persónu á næstunni, segir í frétt AFP.

Guterres átti meðal annars að vera heiðursgestur á árlegri hátíðarsamkomu samtaka fréttamanna hjá Sameinuðu þjóðunum í dag og taka þátt í umræðum Öryggisráðinu á morgun, um ógnir af völdum hryðjuverka og loftslagsbreytinga.

Þríbólusettur 

Stephane Dujarric, talsmaður aðalframkvæmdastjórans, vildi ekki tjá sig um líðan hans að svo stöddu, segir í frétt AFP. Hann lét það hins vegar uppi fyrir skemmstu að Guterres hefði þegið örvunarskammt af bóluefni gegn COVID-19 fyrir nokkru dögum, eftir talsvert hik.

Hikið stafaði af því, sagði Dujarric, að Guterres er efins um réttmæti þess að fólk í ríkum löndum þiggi þriðja bóluefnaskammtinn á meðan milljarðar eru enn alls óbólusettir í hinum fátækari ríkjum heims.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV