Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrrverandi eiginkona landsliðsmanns segir Magnús ljúga

08.12.2021 - 15:45
Innlent · KSÍ
Mynd með færslu
 Mynd: KSÍ
Fyrrverandi eiginkona landsliðsmanns í knattspyrnu segir framburð Magnúsar Gylfasonar í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ um KSÍ vera rangan. Skýrslan var uppfærð í dag eftir að nefndinni barst framburður hennar.

Í skýrslunni sem gerð var opinber í gær er meðal annars fjallað um meint heimilisofbeldi fyrrverandi  landsliðsmanns í garð þáverandi eiginkonu sinnar. Í frétt Fréttablaðsins frá því í fyrra segir að lögreglan í Hafnarfirði hafi verið kölluð að heimili í Garðabæ hinn 5. júlí 2016 eftir að  landsliðsmaður í fótbolta, „gekk þar berserksgang, braut allt og bramlaði og hafði í hótunum við þáverandi eiginkonu sína“. Í fréttinni sagði að þegar lögreglan kom á staðinn hafi hann „flúið vettvang en samkvæmt heimildum blaðsins var íbúðin í slæmu ástandi og sjáanlegar skemmdir víða“. er haft eftir frétt blaðsins í skýrslunni.

Klara upplýsti Geir, Guðna og Magnús

Segir jafnframt að heimildir blaðsins hermi að nágrannar hjónanna þáverandi hafi tilkynnt málið til KSÍ en sambandið hafi ekkert aðhafst í málinu. Klara Bjartmarz greindi nefndinni frá því að hún hafi fengið símhringingu um svipað leyti með upplýsingum um málið, og þeim hafi hún deilt með Geir Þorsteinssyni, Guðna Bergssyni og Magnúsi Gylfasyni. 

„Þar sem málið hefði átt sér stað utan landsliðsverkefnis hefði KSÍ ekki litið svo á að það væri í verkahring sambandsins heldur lögreglu að aðhafast frekar í málinu. KSÍ hefði löngu síðar fengið þær upplýsingar að kæran á hendur A [landsliðsmanninum] hefði verið dregin til baka.“ segir í skýrslunni.

Í upphaflegri skýrslu kom fram að Magnús Gylfason, fyrrverandi stjórnarmaður KSÍ, hefði hitt landsliðsmanninn og þáverandi eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð til vegna meints heimilisofbeldis landsliðsmannsins. Magnús var á þeim tíma hvorki starfsmaður KSÍ né í stjórn sambandsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV

 

Var ekki í ástandi til að hitta neinn

Í tölvupósti frá ÍSÍ nú síðdegis er greint frá því að skýrslan hafi nú verið leiðrétt, þar sem fyrrverandi eiginkona landsliðsmannsins segir Magnús fara með rangt mál. Hún hafi ekki hitt Magnús og þáverandi eiginmann sinn á kaffihúsi þennan dag, né nokkurn annan, og hún geti bent á fleiri en eitt vitni því til staðfestingar.

Líðan hennar hafi heldur ekki verið með þeim hætti að hún væri að hitta neinn á kaffihúsi daginn eftir og Magnús hafi engar forsendur haft til að draga ályktanir um hennar líðan. Þá hafi hún heldur ekki hitt þáverandi eiginmann sinn næstu daga eftir atvikið.

Fréttastofa hefur ekki náð í Magnús Gylfason í dag.

Nágrannar fengu ekki svör frá KSÍ

Nefndin ræddi einnig við nágranna hjónanna fyrrverandi sem óskaði eftir því að fá að ná tali af einhverjum úr þjálfaraliði KSÍ. Hann hafi hins vegar ekki fengið nein viðbrögð við þeirri ósk. 

„Úttektarnefndin bar þessar upplýsingar undir báða þjálfara landsliðsins á þessum tíma, þá Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímsson, og kannaðist hvorugur við að hafa fengið skilaboð af þeim toga sem um ræðir.“ segir í skýrslunni.

Uppfærða skýrslu má lesa hér. Fjallað er um málið á síðu 45.