Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætla að bólusetja sex þúsund manns á Akureyri í vikunni

08.12.2021 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Raðir hafa myndast í morgun fyrir utan slökkvistöðina á Akureyri þar sem von er á um sex þúsund manns fái örvunarbólusetningu næstu tvo daga. Yfirhjúkrunarfræðingur segir mætinguna góða það sem af er degi.

Rúmlega þrjú þúsund boðaðir í dag

Bólusetningarátak hófst á Akureyri í morgun en stefnt er að því að bólusetja þúsundir manna í vikunni. Ingibjörga Lára Símonardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN heldur utan um verkefnið. „Fólk bara streymir að og það eru frábær tíðindi. Þetta verða mjög stórir dagar í dag og á morgun. Við erum með 3200 boðaða í dag í Moderna og svipaður fjöldi á morgun í Pfizer. Við bara hvetjum alla til að þiggja boðin og taka örvunarbólusetningu fyrir jól,“ segir Ingibjörg. 

Lætur raðir og kulda ekki stoppa sig

Ásgeir Ólafson Lie, er einn þeirra sem mætti í röðina í morgun. „Þetta er eitthvað sem ég var öruggur um að gera og finnst að allir ættu að gera,“ segir Ásgeir. 

Það er svolítið kalt og röð, þú lætur það ekkert á þig fá? 

„Nei ég var í vinnunni og fór heim að skipta um föt þannig að ég sá röðina þannig að nei nei nei, þetta er bara venjulegt.“

Fjórir dagar fram að áramótum

Boðað verður til bólusetninga einn dag í næstu viku og er það síðasti möguleiki á þessu ári. Næstu bólusetninga eru sem hér segir:

  • Miðvikudag 8. desember frá kl. 9.00 til 16.00 – mRNA Moderna
  • Fimmtudag 9. desember frá kl. 9.00 til 16.00 – mRNA Pfizer
  • Fimmtudag 16. desember frá kl. 13.00 til 15.00
  • Fimmtudag 6. janúar frá kl. 13.00 til 16.00

Til þess að komast hjá umferðartöfum er fólk beðið um að koma gangandi ef kostur er eða að sameinast í bíla. Þá er fólk beðið um að mæta þann dag sem það er boðað í bólusetningu.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Á Akureyri í morgun