Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Willum kynnir sínar fyrstu aðgerðir í dag

07.12.2021 - 07:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnir að öllum líkindum næstu skref í innanlandsaðgerðum að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu í dag. Þetta er fyrsta ákvörðun ráðherrans í sóttvarnaaðgerðum síðan hann tók við embætti í byrjun seinustu viku.

Þórólfur Guðnason skilaði minnisblaði um næstu skref um helgina. Líkt og við útgáfu fyrri minnisblaða vildi hann ekki tjá sig um efni þess en Vísir hafði eftir Willum í gær að Þórólfur væri ekki að leggja til hertar aðgerðir og að von væri á að svipaðar aðgerðir verði áfram við lýði, án þess að fara út í smáatriði í þeim efnum. Þá vildi hann ekki staðfesta hvort að hann myndi fara í einu og öllu eftir þeim tillögum sem Þórólfur leggur til í minnisblaðinu.

Núgildandi aðgerðir renna út á morgun. Samkvæmt þeim mega 50 manns koma saman með þeirri undantekningu að ef fólk fer í hraðpróf mega 500 vera í sama rýminu. Eins metra regla er í gildi og grímuskylda þar sem ekki er unnt að verða við henni.  Fjöldatakmörkun, nálægðarmörk og grímuskylda eiga ekki við um börn sem fædd eru 2016 eða síðar.

Veitinga og skemmtistöðum er gert að hætta að bera fram veitingar klukkan 22 og allir gestir skulu vera komnir út klukkan 23. Sund og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði mega taka á móti 75 prósent af leyfilegum gestafjölda sínum. 

Nánar má lesa um núgildandi takmarkanir hér. 

Aðgerðir voru hertar í byrjun nóvember vegna fjölgunar smita og vegna álags á Landspítala. Síðan þá hefur nýgengi innanlandssmita þokast niður á við og fjöldi daglegra innlagna á Landspítala verið nokkuð jafnt. Í gær voru 24 inniliggjandi vegna sjúkdómsins, þar af fimm á gjörgæslu og fjórir í öndunarvél. Nú eru 1.366 í einangrun og 1.882 í sóttkví. Þá fækkar lítillega þeim sem eru í eftirliti covid-göngudeildar spítalans. 

Frá því að núgildandi aðgerðir tóku gildi hefur nýtt afbrigði veirunnar borist til landsins, omíkron afbrigðið sem talið er vera meira smitandi en fyrri afbrigði. Ekki er vitað hvort að afbrigðið veldur meiri veikindum en fyrri afbrigði.