Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rakettuverð gæti rokið upp eftir bras við innflutning

07.12.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Landsbjörg hefur gengið brösuglega að flytja inn flugelda í ár vegna gámaskorts. Formaður flugeldanefndar segir kostnað við innflutning hafa margfaldast sem mun hafa áhrif á útsöluverð.

„Það er náttúrlega bara gámaskortur í heiminum“

Á hverju ári flytja björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar inn flugelda í tonnavís. Undirbúningur stendur yfir nær allt árið en vegna heimsfaraldursins hefur hann farið nokkuð úr skorðum í ár. Gísli Þráinsson formaður flugeldanefndar Landsbjargar segir verkefnið hafa verið óvenju flókið. „Það er náttúrlega bara gámaskortur í heiminum, í fyrsta lagi erfitt að fá gáma og svo eru skipafélögin tregari við að taka vöruna. Einhver skipafélög hafa bara verið full og ekki viljað taka þessa vöru, þannig að við þurftum að finna aðra leið í gegnum Evrópu en við erum vön að gera en það er að hafast,“ segir Gísli.  

Vinna öll jólin ef þess þarf

Í venjulegu árferði eru flugeldar að berast til landsins frá miðju sumri en nú hafa sendingar tafist um fleiri vikur og eru fyrst núna að koma til landsins. Gísli segir þetta skapa aukna vinnu fyrir sjálfboðaliða. „Salan opnar náttúrleg bara á sínum tíma eins og alltaf en við þurfum kannski að hlaupa svolítið til að klára undirbúning. Það er bara verkefnið, jólin eru undir ef að þetta kemur mjög seint. En við höfum ekkert látið það aftra okkur í þessum verkefnum frekar en öðrum.“

Hefur áhrif á verð

Hann segir hækkanir á innfluttningsgjöldum muni óhjákvæmilega hafa áhrif á verðið. „Flugeldarnir eru í sjálfum sér ekkert dýrari en flutningsverðið hefur margfaldast á milli ára og það mun hafa sjálfsagt einhver áhrif.“

Það er ekkert hægt að slá á hversu mikil hækkun er í vændum?

„Nei ekki eins og er.“