Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kisukoti gert að sækja um starfsleyfi

07.12.2021 - 09:44
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Kona, sem hefur undanfarin 10 ár fóstrað heimilislausa ketti á heimili sínu á Akureyri, þarf nú að sækja um sérstakt starfsleyfi til yfirvalda. Hún telur sig ekki hafa burði til þess en hún hefur enga fjárhagslega aðstoð fengið frá bæjaryfirvöldum.

Fóstrar ketti í sjálfboðastarfi

Ragnheiði Gunnarsdóttur þótti Akureyrarbær ekki gera nóg fyrir ketti á vergangi. Hún fór því sjálf í að fanga villiketti og látið gelda þá, bjargað kettlingum og tekið inn ketti sem hvergi eiga heima. Allt þetta gerir hún í sjálfboðavinnu af hugsjón. 

„Það hefur svolítið fækkað eins og villiköttum og vergangsköttum í bænum af því að ég er búin að vera að þessu í næstum 10 ár.  Kattahald á Akureyri er kannski búið að vera svolítið á minni könnu og hefur verið það síðustu 10 ár,“ segir Ragnheiður.

Gert að sækja um starfsleyfi

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur sent Ragnheiði bréf þar sem henni var bent á að sækja um starfsleyfi en forsenda þess leyfis er að fyrir liggi samþykki skipulagsstjóra og byggingafulltrúa fyrir breyttri húsnotkun.

„Þeir vilja að ég skrái mig sem athvarf og fái til þess tilskilin leyfi en málið er að ég er í rauninni ekki athvarf í eiginlegum skilningi,“ segir Ragnheiður. Hún segir að þeir styrkir sem hún fái, að mestu frá einstaklingum, nægi ekki til að halda sérstakt húsnæði fyrir dýrin. 

„En draumurinn væri náttúrulega að við gætum komið þessu í sitt eigið húsnæði og ég þyrfti ekki að vera með þetta inni hjá mér og þá myndum við auðveldlega uppfylla kröfur.“

Heilbrigðiseftirlitinu ber að leiðbeina starfseminni

Heilbrigðiseftirlitið hefur fengið málið inn á sitt borð vegna kvartana einstaklinga og Ragnheiði gert að sækja um leyfi.

Alfreð Schiöth, heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi eystra, segir að Heilbrigðiseftirlitinu beri sem stjórnvald að leiðbeina slíkri starfsemi. Hvað þurfi að gera samkvæmt lögum og reglum og hann segir margar leiðir mögulegar að markmiðinu. Hann segir að fordæmi liggi fyrir um ýmsa starfsemi tengda dýrum. Ragnheiður ætti því að fara að leibeiningum heilbrigðisfulltrúa og fara rétta leið í kerfinu við að afla starfsleyfisins.

Best væri að finna sameiginlega lausn

Heldurðu að Akureyrarbær sé viljugur til að leggja þessari starfsemi hjálparhönd?

Það held ég að hljóti að vera því ég held að allir vilji efla velferð dýra og ef þessi starfsemi væri ekki þá myndu einfaldlega verkefni Akureyrarbæjar aukast,“ segir Alfreð.

Hann telur eðlilegast að Kisukot og Akureyrarbær reyni að finna sameiginlega lausn í málinu.

Þegar Ragnheiður er spurð að því hvort Kisukot hafi nokkurn tímann fengið fjárhagslegan stuðning vegna starfs síns í þágu katta í bænum er hún fljót til svars;   „Nei, ekki krónu.“