Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hóta Rússum efnahagstjóni og auknum hernaðarumsvifum

07.12.2021 - 05:52
epa09619100 Ukrainian serviceman have a rest in a trench on a front line near the Svetlodarsk, not far from pro-Russian militants controlled city of Horlivka, Donetsk area, Ukraine, 03 December 2021. Ukrainian officials said Russia has amassed more than 90,000 troops along the Ukraine-Russian border but Moscow denies it is preparing an attack on Ukraine. US Secretary of State Blinken warned about serious consequences in case if Russia will start the conflict with Ukraine during Organization for Security and Co-operation in Europe (OSCE) foreign ministers meeting in Stockholm on 02 December 2021.  EPA-EFE/ANATOLII STEPANOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk stjórnvöld hóta Rússum hvorutveggja „mjög miklu efnahagslegu tjóni" og stórauknum hernaðarumsvifum í Austur-Evrópu, ráðist þeir inn í Úkraínu. Þá bundust leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu fastmælum um það í gær að sýna Rússum „mikla festu“ í þeirri afstöðu sinni að virða skuli fullveldi og landamæri Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræða saman á fjarfundi í dag og málefni Úkraínu verða þar efst á baugi. Ned Price, upplýsingafulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins greindi frá því í gær, að bæði Bandaríkin og bandalagsþjóðir þeirra í Evrópu séu tilbúin að grípa til aðgerða, ráðist Rússar inn í Úkraínu.

Í yfirlýsingu frá embætti Bandaríkjaforseta segir að slíkt muni hafa mjög alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Rússa og kalla á stóraukna viðveru bandarísks herafla í Austur-Evrópu, ekki síst í Eystrasaltsríkjunum þremur og Póllandi, sem öll eiga landamæri að Rússlandi. Þar eru fyrir fjórar herdeildir NATO, ein í hverju landi. Í yfirlýsingunni er þó ekki gengið svo langt að hóta beinum hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna.

Vesturveldin heita "staðfestu" í Úkraínudeilunni

Á símafundi Bidens og evrópsku leiðtoganna fjögurra lýstu þeir sig staðráðna í að gera allt sem þörf krefur til að „tryggja frið og öryggi í Evrópu,“ eins og segir í tilkynningu frá skrifstofum Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta. Jafnframt lögðu þeir áherslu á að Rússar yrðu að setjast aftur að samningaborðinu með Úkraínumönnum.

Mikill liðssafnaður Rússa við úkraínsku landamærin

Vitað er að Rússar hafa safnað miklu liði við úkraínsku landamærin. Heimildum ber ekki saman um hversu mikið það lið er, en Úkraínumenn áætla að þeir séu um eða yfir 100.000 og fari fjölgandi.

Háttsettur embættismaður í bandaríska stjórnkerfinu sagði í samtali við blaðamann Washington Post á föstudag að Rússar væru að undirbúa innrás í Úkraínu í janúar næstkomandi með allt að 175.000 manna liði.

Rússar afneita innrásarhug og saka Vesturlönd um ögranir

Stjórnvöld í Kreml hafa jafnan vísað öllum vangaveltum um innrás þeirra í nágrannaríkið á bug og saka Vesturveldin um að skara eld að ófriðarbáli með síendurteknum ásökunum sínum og ögrunum, svo sem með heræfingum sínum á Svartahafi.

Vara þeir Bandaríkin og NATO við því að blanda sér frekar í málefni Úkraínu og Rússlands. Í frétt AFP segir að Pútín vilji fá tryggingu Vesturlanda fyrir því að Úkraína verði ekki tekin inn í NATO, og að Rússar líti á aðild Úkraínu að sambandinu sem línu sem ekki megi fara yfir.