Fjórtán ára og les hrútaskrána spjaldanna á milli

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Fjórtán ára og les hrútaskrána spjaldanna á milli

07.12.2021 - 07:45

Höfundar

„Þetta eru náttúrulega allt flottir hrútar en mér líst einna best á Galla frá Hesti og Dal frá Ásgarði í Hvammssveit," segir Arnar Darri Ásmundsson, ungur áhugamaður um sauðfjárrækt.

Leggur stund á fótbolta, körfubolta og sauðfjárrækt

Arnar Darri, sem er fjórtán ára, býr í Garðabæ og þar leggur hann stund á fótbolta og körfubolta með sínum jafnöldrum en notar hins vegar hvert tækifæri til að komast í sveitina til ömmu og afa á Fossi á Snæfellsnesi en þar tekur hann virkan þátt í sauðfjárbúskapnum. Hann les hrútaskrána spjaldanna á milli og horfir á kynningarmyndbönd um einstaka hrúta á Youtube. „Ég hef haft áhuga á kindum síðan ég man eftir mér og það hefur einhvern veginn bara aukist. Allavega hef ég fengið bara meiri og meiri áhuga á ræktunarstarfi. Maður sér árangurinn svo fljótt,“ segir Arnar Darri.

Hefur sterkar skoðanir á ræktuninni

Arnar Darri getur þulið upp heilu hrútaættirnar og hefur miklar skoðanir á arfgerð og eiginleikum sem hann vill ná fram í sinni ræktun. Og hann segist vel geta hugsað sér að verða sauðfjárbóndi í framtíðinni. „Eins og staðan er allavega núna þá er það stefnan. Ég ætla að fara í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og sjá svo til.“