Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fær að fara til Oslóar til að taka við friðarverðlaunum

epa09623451 Nobel Peace Prize laureate Maria Ressa, CEO and Executive Editor of online news site Rappler reacts during an interview at a restaurant in Taguig City, Manila, Philippines, 09 October 2021. Maria Ressa, CEO and Executive Editor of online news site Rappler along with Dmitry Muratov, editor-in-chief of newspaper Novaya Gazeta were announced winners of the 2021 Nobel Peace Prize by the Nobel Committee in Oslo on 08 October 2021.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Filippeyska blaðakonan Maria Ressa mun ferðast til Oslóar til að taka við friðarverðlaunum Nóbels á föstudag í eigin persónu. Þetta varð ljóst eftir að þriðji dómstóllinn samþykkti umsókn hennar um að fá að fara til Noregs til að veita verðlaununum viðtöku.

Harður gagnrýnandi Dutertes

Ressa hefur verið óvæginn og opinskár gagnrýnandi Rodrigos Dutertes  forseta Filippseyja frá því áður en hann tók við embætti og hefur ekki látið hótanir og hindranir aftra sér frá því að halda sínu striki.

Norska Nóbelsnefndin ákvað að veita henni og hinum rússneska kollega hennar, Dmitry Muratov, friðarverðlaunin í ár fyrir þrotlausa baráttu þeirra við að verja tjáningarfrelsið í heimalöndum sínum.

Sjö mál gegn Ressa fyrir dómstólum

Ressa er frjáls en á skilorði þar til áfrýjunardómstóll tekur fyrir áfrýjun hennar á dómi sem hún hlaut fyrir meiðyrði í fyrra. Til að fá að fara til Oslóar þurfti hún að sækja um ferðaheimild til þriggja dómstóla. Sá síðasti, dómstóll í skattamálum, úrskurðaði í morgun að henni væri heimilt að fara til Noregs, þar sem hún mun dvelja frá 8. til 13. desember.

Í samtali við tíðindamann AFP-fréttastofunnar sagði Ressa að sér liði „stórkostlega“ eftir að þessari síðustu hindrun var rutt úr vegi hennar til Oslóar. Áfrýjunardómstóllinn sem fer með meiðyrðamálið á hendur henni samþykkti ferðaplön hennar í síðustu viku. Hafnaði dómarinn þeim málatilbúnaði stjórnvalda að hætta væri á að Ressa myndi nota tækifærið til að flýja og koma sér undan dómi.

Áður hafði hún fengið fararleyfi frá héraðsdómi þar sem enn annað mál gegn henni er til meðferðar. Alls eru sjö mál gegn Ressa til meðferðar fyrir filippeyskum dómstólum.