Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Engin málefnaleg gagnrýni á skipan Jóns eða Brynjars

Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir enga málefnalega gagnrýni hafa komið fram á skipan Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra. Þá kveðst hann ekki skilja gagnrýni á skipan Brynjars Níelssonar sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra og segir hann reyndan þingmann sem njóti mikils stuðnings.

„Fólki er frjálst að hafa skoðun á einstaka ráðherrum en ég sé bara engan málefnanlegan grundvöll fyrir þeirri gagnrýni sem hefur komið fram“ segir Bjarni.

Þú telur að það sé engum vandkvæðum bundið að þeir sinni þessum málaflokki?

„Veistu ég veit bara ekki alveg hvernig ég á að bregðast við þessari spurningu. Við erum að tala um þingmann sem er ný genginn í gegn um kosningar og ætli hann sé ekki meðal þeirra þingmanna sem eru með mestan stuðning við sig inni á Alþingi ef þú telur atkvæðin“ segir Bjarni.

„Ég bara veit ekki alveg hvert þú ert að fara þegar þú spyrð hvort það séu einhverjar hömlur á því hvaða verkefni þessi nýkjörni þingmaður geti tekið að sér. Við erum nýbúin að framkvæma lýðræðislegar kosningar hér á Íslandi og mér er sömuleiðis ómögulegt að skilja hvað átt er við með það að Brynjar Níelsson sé ekki hæfur“ segir Bjarni.

Ekki skynsamlegt að horfa bara til barnabótanna

Spurður um nýlega gagnrýni um lágar barnabætur, segir Bjarni það sé ekki skynsamlegt að horfa til þeirra eingöngu þegar stuðningur til barnafjölskyldna er metinn.

„Óskertar barnabætur eru hærri á Íslandi en á norðurlöndunum. Þegar við skoðum stuðning við barnafjölskyldur bæði frá ríki og sveitarfélögum þá kemur Ísland mjög vel út í þeim samanburði“ segir Bjarni.

Hægt er að horfa á viðtalið við Bjarna Benediktsson í heild sinni í spilaranum hér að ofan.