Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætlaði að drepa Rebus í fyrstu bók

Mynd: Kiljan / RÚV

Ætlaði að drepa Rebus í fyrstu bók

07.12.2021 - 14:50

Höfundar

Ian Rankin, einn vinsælasti glæpasagnahöfundur heims, var heiðursgestur á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir sem fram fór í nóvember. Þekktastur er Rankin fyrir bækur sínar um lögreglumanninn John Rebus, sem telja má einn frægasta íbúa Edinborgar, en minnstu munaði að persónan yrði ekki langlíf.

Bækurnar um Rebus hafa notið mikilla vinsælda um heim allan. Eftir Ian Rankin hafa einnig komið út aðrar bækur, þar sem lögreglumaðurinn breyski kemur ekki við sögu, og sjálfur hefur höfundurinn ekki tölu á fjölda bóka sem hann hefur skrifað. „Þær eru mjög margar. Ég er hættur að telja,“ segir hann í viðtali í Kiljunni á RÚV.

Rebus hóf tilvist sína sem virðingarvottur við Dr. Jekyll og Mr. Hyde, sígilda sögu Roberts Louis Stevensons. „Mig langaði að sýna heiminum að Edinborg er fögur að sjá og menningarleg á yfirborðinu en glímir við margháttuð félagsleg vandamál og glæpi undir yfirborðinu. Ég ákvað því að nota lögreglumann sem er bæði góður og vondur.“

Litlu munaði þó að fyrsta sagan um Rebus yrði sú síðasta. „Í fyrstu bókinni brýtur hann oft lögin og hann átti bara að koma fyrir í einni bók. Í fyrsta uppkastinu að fyrstu sögunni drap ég hann í lokin. Í næstu útgáfu vakti ég hann aftur til lífsins, það var lán.“

Rebus hefur ætíð verið gallagripur, með hina ýmsu skavanka og drekkur of mikið. Hann hefur þó lagt tóbakið á hillunaheilsunnar vegna, segir Rankin, og það veldur honum leiðindum.

„Hann er ekki flinkur í samskiptum við aðra, hvort sem það eru ástarsambönd eða fjölskyldan. En það gerir hann góðum lögreglumanni. Hann heillast algerlega af öðru fólki svo að hann þurfi ekki að íhuga eða hugsa of mikið um sig sjálfan og vandamál sín. Svo að hann sökkvir sér ofan í vandamál annarra.“

Egill Helgason ræddi við Ian Rankin í Kiljunni á RÚV.