Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sýknaður af skaðabótakröfu fyrrverandi ráðherra

06.12.2021 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur hefur staðfest sýknudóm í skaðabótamáli Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi ráðherra, og Péturs Þórs Sigurðssonar gegn verktaka vegna galla sem þau töldu vera á uppsetningu glugga í húsi þeirra við Haukanes. Hjónin kröfðu verktakann um 4,3 milljónir króna en Landsréttur dæmdi þau til að greiða verktakanum 2 milljónir í málskostnað.

Verkið og aðdragandinn að því er rakinn nokkuð ítarlega í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þar kemur meðal annars fram að gert var ráð fyrir ákveðinni tegund festinga og að Jónína og Pétur óskuðu eftir því við verktakann að hann fyndi aðra leið til að festa glugga og hurðir vegna „fagurfræðilegra sjónarmiða.“ Verktakinn kom með tillögu sem þau hjónin féllust á. Undir lok verksins kom upp einhver ágreiningur sem sneri að innanverðum frágangi glugga og fór frekari vinna ekki fram.

Jónína og Pétur Þór fengu lögfræðing og húsasmíðameistara til að taka út verkið. Og hann komst að þeirri niðurstöðu að kostnaður við úrbætur væri um 3,6 milljónir.  Sú upphæð hækkaði síðan í  5,5 milljónir króna eftir að dómkvaddur matsmaður var fenginn til að meta verkið.

Hjónin sögðu í stefnu sinni að verkið væri gallað og að verktakinn hefði ekki efnt samningsskyldur sínar.  Verkið hefði ekki verið faglega unnið og ekki af mönnum sem voru fyllilega til þess hæfir.  

Verktakinn sagði í greinargerð sinni að hinn dómkvaddi matsmaður hefði gefið sér forsendur og lýst í matsgerð sinni verki sem ætti ekkert skylt við það verk sem hann hefði boðist til að vinna. Það hefði enda verið tvöfalt dýrara í framkvæmd.

Í dómi Landsréttar, sem var skipaður einum sérfróðum meðdómsmanni, segir að í matsgerð dómkvadds matsmanns hafi komið fram að frágangur á frauði og kíttun hefði verið ófullnægjandi við gluggakarma. Ekki hefði verið sett nægjanlegt magn af frauði og kítti við suma glugga. 

Dómurinn taldi engu að síður að horfa yrði til þess að úr þeim ágalla væri auðvelt að bæta með því að sprauta inn meira frauði og kítta betur.  Og að verktakinn hefði boðist til að lagfæra þá ágalla sem fólust í ónægri kíttun.

Var verktakinn því sýknaður af skaðabótakröfunni og Jónínu og Pétri Þór gert að greiða honum tvær milljónir í málskostnað.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV