Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stórframkvæmd síns tíma í Stapavík

06.12.2021 - 14:50
Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn
Við austanverðan Héraðsflóa er Stapavík. Þar má enn sjá mannvirki uppskipunarhafnar sem var þar á árunum 1930 til 1945.

Mikið mannvirki á sínum tíma

Landinn slóst í för með Þorsteini Bergssyni í Stapavík, en hann bjó lengi vel á næsta bæ, Unaósi. „Ríkissjóður þurfti að koma að þessu á sínum tíma og þeir lögðu í þetta tæpar sjö þúsund krónur sem var mikið fé á þeim tíma. Þá voru kannski bújarðir að seljast á innan við helming af því. Ef við umreiknum það þá hefur þetta skipt tugum ef ekki hundruðum milljóna króna,“ segir Þorsteinn.

Brattur vír og banaslys

Uppi á brúninni er spil sem var notað til að hífa vörur upp af skipum í víkinni. Þá komust skipin inn í víkina sem nú er full af sandi. Þrátt fyrir mikil og dýr mannvirki þá var uppskipunarhöfnin í Stapavík aðeins notuð í um fimmtán ár og búnaðurinn enn skemur.

„Það var notuð stór sveif á spilið og það var knúið áfram með handafli og síðan gerðist eitthvað við uppskipun og það kom slinkur á vírinn og þá misstu menn vald á sveifinni og hún slóst í höfuðið á manni hér og það varð banaslys og Þetta var reyndar bóndinn á Unaósi sem fórst þar frá ungum börnum. Við það kom skrekkur á menn við að nota þennan búnað.“

Minjar um liðna tíð í fallegri náttúru

Þorsteinn segir að síðast hafi verið skipað upp 1939 en svo vörur bornar upp brattann í víkinni. Með bættum vegasamgöngum varð greiðfærara fyrir Héraðsbúa að fara niður á firðina eftir aðföngum og því missti uppskipunarhöfnin í Stapavík hlutverk sitt sem slík en í Stapavík liggur nú vinsæl gönguleið.  

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður