Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skortur á raforku gæti verið hamlandi

06.12.2021 - 17:30
Mynd: Valdimar Guðmannsson / Feykir.is
Mikil uppbygging hefur verið á Blönduósi síðustu ár og er nú verið að byggja ríflega 4000 fermetra af iðnaðarhúsnæði í bænum auk íbúðarhúsnæðis. Sveitarstjóri óttast þó að skortur á raforku geti haft hamlandi áhrif á uppbygginguna.

Hafði ekki verið byggt í 10 ár

Frá árinu 2018 hefur verið talsverð uppbygging á Blönduósi. Þá var byrjað að byggja alls 14 íbúðir en þar á undan hafði ekki verið byggt íbúðarhúsnæði í 10 ár. 

Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar segir ýmsar ástæður fyrir að Blönduós er að byggjast upp. „Það er nú bara kannski að fleiri eru að uppgötva að Blönduós er vel staðsett, svona miðsvæðis fyrir ýmsa þjónustu og síðan er uppbygging í tengslum við gagnaverið og fleira sem hér er að gerast á þjónustusvæðinu og svo uppbygging á ferðamannastöðum.“

Víða um bæinn eru byggingarframkvæmdir. Bæði inn í bænum sem og í útjaðri hans.

Samtals næstum 5000 fermetrar af iðnaðarhúsnæði

„Síðan eru þrjú stór verkefni við iðnaðarhúsnæði sem er óvenjulegt að sé á sama tíma. Það eru hérna 1800 sem við stöndum inni í hérna . -Gagnaverið er síðan að bæta við 1300-1400 fermetrum á þessu ári og væntanlega öðru eins og næsta ári. Síðan er að koma mjög spennandi hátækni matvælavinnsla í tengslum við Vilko sem er þó ekki alveg það sama. Þetta eru þá samtals á fimmta þúsund fermetrar af iðnaðarhúsnæði,“ segir Valdimar.

Skortur á vinnuafli og íbúðarhúsnæði hefur staðið uppbyggingu nokkuð fyrir þrifum. Unnið er að breytingu á deiliskipulagi þannig að hægt verði að byggja enn meira húsnæði þó nokkuð vanti upp á fjármagn til uppbyggingarinnar.

Vantar betra aðgengi að raforku

Sömuleiðis er vöntun á raforku fyrir vaxandi iðnað í sveitarfélaginu.

„Við höfum verið að máta það að byggja græna iðngarða í tengslum við gagnaverið og þá vantar einmitt til að geta stækkað það svæði, gagnaver eða skyldan iðnað, þá vantar meiri raforku inn á þetta svæði,“ segir Valdimar.

Hann segir það svolítið sérstakt að hafa Blöndu í túnfætinum en geta ekki fengið meira rafmagn á svæðið. Hann segir að verið sé að leita leiða til að bæta tengingar til að hægt sé að nýta betur orkuna frá ánni. 

„Það er verið að reyna að kreista út úr núverandi tengingum eins og hægt er til þess að stoppa ekki alveg uppbygginguna en við óttumst að þetta sé hamlandi til lengri tíma,“ segir Valdimar.