Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sama ásókn í jólaaðstoð þrátt fyrir bætt atvinnuástand

06.12.2021 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrátt fyrir bætta stöðu á vinnumarkaði eru umsóknir um jólaaðstoð hjá Velferðarsjóði Eyjafjarðar svipað margar og í fyrra sem var algjört met ár. Formaður sjóðsins segir að svo virðist sem bætt atvinnuástand hafi lítil áhrif á þann fjölda sem sækir aðstoð.

Met slegið í fyrra

Met var slegið fyrir jólin í fyrra í umsóknum eftir mataraðstoð hjá Velferðarsjóði sem þjónar Akureyri og nærsveitum. Þá bárust umsóknir frá 400 heimilum í Eyjafirði, samanborið við 309 árið áður. Lokað var fyrir umsóknir á föstudaginn og árið í ár virðist ætla að vera svipað. „Þetta lítur út svipað og hjá okkur í fyrra. Umsóknir eru um 400,“ segir Sigríður M. Jóhannsdóttir, formaður velferðarsjóðsins. 

Samstarfsverkefni margra félaga

Frá því árið 2013 hefur Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar unnið saman að því að veita fólki fjárhagsaðstoð fyrir jólin í formi gjafakorta í matvöruverslunum og matar.

Gengið vel að safna styrkjum

Neyðin virðist svipuð og í fyrra sem Sigríður segir hafa komið nokkuð á óvart. „Já það gerir það. En að hluta til er þó nokkuð af erlendu fólki hjá okkur núna og af fleiri þjóðernum, sem við höfum verið að fá inn heldur en oft áður.“

Þið auðvitað takið við fjármunum og mat, hvernig hefur gengið að safna þessu saman? 

„Það hefur gengið bara mjög vel að fá styrki frá fólki og fyrirtækjum í bænum og án þeirra gætum við ekki gert þetta sem við erum að gera. Og þó það sé lokað fyrir umsóknir þá tökum við áfram við gjöfum. Við beinum þeim sem eru að koma með gjafir að koma með þær í Hertex og fatnað í Rauða krossinn,“ segir Sigríður. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Akureyri