Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýr flutningsfulltrúi hjálpar fólki að flytja í bæinn

06.12.2021 - 16:03
default
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Sveitarfélagið Fjallabyggð hefur ráðið manneskju til að aðstoða fólk við að flytja í bæinn. Bæjarstjórinn er vongóður um að fulltrúinn auki áhuga fólks á að flytja í bæinn.

Viltu leigja, kaupa eða byggja?

Ertu að velta fyrir þér atvinnu- og skólamálum? Viltu leigja, kaupa eða byggja? Hvernig er með íþróttir, líkamsrækt, félagsstörf og tómstundir? Þetta eru allt saman spurningar sem nýr flutningsfulltrúi í Fjallabyggð getur svarað. Um tvö þúsund manns búa í Fjallabyggð og Elías Pétursson, bæjarstjóri, vonar að með nýjum starfsmanni fjölgi íbúum. 

Vongóður um að íbúum fjölgi

„Ástæða þess að við erum að setja þetta í gang er í rauninni að við teljum að þegar fólk er að hugsa um að flytja eitthvað að þá séu margar spurningar sem þarfnist svara og ólíkar spurningar. Við erum í raun með þessu að búa til einhvern einn starfsmann sem þú getur leitað til sem  annað hvort getur svarað þér eða aðstoðað þig við að finna svör,“ segir Elías. 

Ertu vongóður um að með þessu aukist áhugi á að flytja í Fjallabyggð?

„Já, ég er að sjálfsögðu vongóður með það og ég held líka að þetta sé gott til að koma því á framfæri hversu gott það er að búa í Fjallabyggð.“

Ætlar að gefa hrein og skýr svör

Flutningsfulltrúi Fjallabyggðar verður Linda Lea Bogadóttir sem einnig þjónar stöðu markaðs- og menningarfulltrúa í sveitarfélaginu. „Við sáum það í hendi okkar að þetta góða fólk sem vill koma hingað hefði ekki sömu innsýn í samfélagið og við sem hér búum — og eðlilega. Mitt hlutverk er að gefa hrein og skýr svör, svör við þessum einföldu hlutum sem erfitt er að nálgast ef þú þekkir ekki því betur til á staðnum,“ segir Linda.