Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Margir á sumardekkjum með nagladekk í skottinu

06.12.2021 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Mikið hefur verið um slys og árekstra í morgun vegna hálkunnar. Framkvæmdastjóri Áreksturs.is segir mjög algengt að bílar séu enn á sumardekkjum og ökumenn jafnvel með nagladekkin í skottinu.

Glerhált var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og hálkan mjög lúmsk og erfitt að átta sig á hvort göturnar voru blautar eða hálar. Allt lið söltunarbíla var að störfum í nótt, byrjað var að salta strætó- og stofnleiðir og síðan farið í fáfarnari götur. Einn úr flotanum lenti í vandræðum í Kjarrhólma í Kópavogi um fimm leytið í morgun þegar hann rann aftur á bak í halla og hafnaði á fimm bílum og um níu leytið lenti ökumaður í því að halda að bílinn hans væri í gír og óhætt að yfirgefa hann, en svo reyndist ekki vera og rann bílinn yfir fót ökumannsins sem slasaðist, en reyndist þó óbrotinn og tókst honum að stöðva bílinn.

Þá hefur álagið á bráðamóttöku Landspítalans verið tvöfalt á við það sem búast má við að sögn Mikales Smára Mikaelssonar yfirlæknis, en þangað hafa margir leitað eftir að hafa runnið til og dottið í hálkunni. Árekstur.is tekur við tilkynningum um árekstra og þar hefur verið nóg að gera í morgun, að sögn Kristjáns Kristjánssonar framkvæmdastjóra Áreksturs.is.

„Já, það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur. Bara strax við opnun byrjuðu línurnar að glóa, má segja, og þær hafa ekki stoppað síðan. Núna þegar er að koma hádegi þá erum við komnir í á annan tug árekstra,“
Og það er langt umfram það sem gerist á venjuegum degi?
„Já, það er búið að vera mjög mikið að gera í dag, langt yfir meðallagi.“

Hann segir algengt að bílar séu enn á sumardekkjum.

„Flestir þessir árekstrar í morgun hafa verið hálkutengdir og það er rosalega mikið um það  og sérstaklega slæmt þetta árið hvað það eru margir á sumardekkjum ennþá miðað við hvað er langt gengið inn á veturinn. Við höfum oftar en ekki heyrt að nagladekkin séu í skottinu. Þau virðast bara ekki komast undir bílana af einhverjum ástæðum, ég skil ekki út af hverju.“