Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lífskjarasamningurinn tók ekki mið af Covid

Mynd: RÚV / RÚV
Lífskjarasamningurinn sem undirritaður voru í aprílbyrjun 2019 gildir til 2. nóvember á næsta ári.  Forystufólk Samtaka atvinnulífsins og í verkalýðshreyfingunni er sammála um að viðræður um nýjan kjarasamning þurfi að byrja sem fyrst á nýju ári.

Stuðla að bættum vinnubrögðum við kjarasamninga

Annað mál er svo hversu samtaka og sammála þau verða um inntak og markmið þessara viðræðna. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er vikið að vinnumarkaðsmálum og þar er meðal annars sagt að stuðlað verði að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. 

Styrkja þarf  hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram.

Kjarasamningar skili farsælli niðurstöðu

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er talað um að kjarasamningar á næsta ári endurspegli efnahagsleg skilyrði og skili farsælli niðurstöðu. Spegillinn ræddi við Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í dag og spurði hvað þessi orð þýddu. 

„Sennilega er það nú þannig að hver og einn getur lesið þetta með sínum gleraugum.  Það sem ég les í þetta er eftirfarandi: Síðustu kjarasamningar sem voru undirritaðir á vormánuðum 2019 voru auðvitað gerðir fyrir Covid. Enginn sá fyrir áhrif Covid hér á Íslandi, í Evrópu og um heim allan. Að því leytinu til passa kjarasamningarnir ekki nægilega vel inn í þennan efnahagslega raunveruleika sem við búum við í dag".

Fáum samningana í hausinn ef við leiðréttum ekki

„Það sem ég les út úr þessum skilaboðum er einfaldlega að við þurfum að spyrja okkur í upphafi kjaralotu hver er hinn efnahagslegi raunveruleiki sem við búum við og við þurfum að horfast í augu við það í upphafi samningalotunnar. Og eftir að við höfum komist að því hvað sé til skiptanna þá eigi kjaralotan að snúast um það með hvaða hætti við eigum að skipta. Ég tek heils hugar undir þessi skilaboð, enda eru þau að stofni til heilbrigð skynsemi" segir Halldór Benjamín og bætir við: „Við sjáum núna að það eru mörg teikn á lofti þess efnis að síðustu kjarasamningar - þeir tóku augljóslega ekki mið af Covidástandinu -  að við munum fá þá í hausinn, ef við leiðréttum þá ekki sem allra fyrst". 

 Brúa þarf bil á milli atvinnugreina  

Halldór Benjamín segir að eitt stærsta úrlausnarefni komandi kjaraviðræðna sé hvernig bilið verði brúað á milli þeirra atvinnugreina sem farið hafa illa út úr faraldrinum og hinna sem betur standa. 

„Báðir aðilar, sama hvort það eru atvinnurekendur eða stéttarfélögin, hafa gefið það út að það er fullur vilji til þess að hefja viðræður fyrr en ella" segir Halldór Benjamín. „Við búum við það núna að það hefur myndast misgengi í atvinnulífinu. Sums staðar hefur gengið ágætlega á meðan aðrar atvinnugreinar eru enn í sárum eftir Covid".

„Ég held að það hljóti að blasa við að það verði eitt stærsta úrlausnarefni við gerð næstu kjarasamninga hvernig við brúum bilið á milli mismunandi atvinnugreina. Ég myndi vilja fá sem dýpst samtal um það strax á fyrstu metrunum"  segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

Heyra má viðtalið við Halldór Benjamín í heild í spilaranum hér að ofan

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV