Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Langir vinnudagar fyrirséðir í desember

06.12.2021 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Nefndastörf hófust af fullum krafti á Alþingi í dag. Formenn fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar búast við mikilli vinnu í desember enda þing sett óvenju seint og lítið að gera síðustu vikur.

Margar nefndir Alþingis hittust í fyrsta sinn í dag eftir þingsetningu og forseti Alþingis fundaði með þingflokksformönnum. Haldinn var annar fundur fjárlaganefndar og sá fyrsti eftir að hafa fengið fjárlagafrumvarpið til meðferðar en að auki kalla breytingar á Stjórnarráðinu á aukin útgjöld sem nefndin þarf að fjalla um. 

„Ég horfi nú alveg bjartsýn fram á þessa vinnu. Ég held að við getum náð þokkalega vel saman og unnið skipulega og vonandi getum við klárað fyrir jól, helst,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar.

„Þetta verður mikið álag og fundir langir og lítið um frí hjá okkur sem erum í fjárlaganefnd og efnahags-og viðskiptanefnd, þannig er það stundum, þetta er vinnan og við erum búin að bíða á kantinum þannig að við höfum haft meira andrými framan af en við gerðum ráð fyrir fram að þessum tíma,“ segir Bjarkey.

Bjarkey segist hafa nýtt tímann vel fram að þingsetningu og hefur ekki áhyggjur af jólaundirbúningnum. „Ég er alla vega búin að baka þannig að ég er klár hvað það snertir, þannig að ég tel mig hafa skilað mínu heima hjá mér og ég á jólasvein sem sér um hitt.“

Fyrsti fundur í efnahags- og viðskiptanefnd var haldinn í dag en þar er til meðferðar svokallaður bandormur þar sem meðal annars þarf að fara yfir lagabreytingar sem fylgja fjárlagafrumvarpinu. Þar eru langir vinnudagar framundan og óvíst hvort náist að klára vinnuna fyrir jól. 

„Ég held að margir séu að vona það en ég persónulega geri ráð fyrir því að vera í vinnunni eins og aðrir landsmenn á milli jóla og nýárs,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

„Við þurfum að vanda okkur vel í þessari vinnu, af því að við vitum það að við erum í ákveðinni tímaþröng og í þannig aðstæðum er hættara við mistökum en ella,“ segir Guðrún.

Guðrún sem er ný á þingi segist vön því að hafa mikið að gera í desember. „Ég held að það sé mjög mikið að gera hjá mjög mörgu fólki í desember og það verður það hjá þingmönnum og starfsmönnum þingsins, þannig að ég kvíði því nú ekki.“

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir