Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jarðskjálfti af stærðinni 3,0 í Grímsvötnum

06.12.2021 - 07:06
Grímsvötn
 Mynd: Atlantsflug - Ljósmynd
Jarðskjálfti af stærðinni 3 var um klukkan korter yfir 6 í morgun í Grímsvötnum. Skjálftinn átti upptök sín um einn og hálfan kílómeter norðnorðaustan við Grímsfjall á um 100 metra dýpi.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir erfitt að segja til um hvort að skjálftinn tengist sigi íshellunnar. Engin merki séu um gosóróa enn sem komið er. Hugsanlegt sé að skjálftinn hafi verið örlítið stærri, það eigi eftir að koma í ljós við frekari skoðun á gögnum og mælingum.

Í gegnum tíðina hefur það gerst að eldgos hefjist í kjölfar hlaupa úr Grímsvötnum. Seinast gerðist það árið 2004, en síðan þá hefur hlaupið sjö sinnum án þess að eldgos fylgi í kjölfarið. Árið 2011 gaus seinast úr Grímsvötnum. Þá hljóp úr katlinum sex mánuðum áður. 

Nokkrir minni skjálftar hafa mælst í kjölfarið og rétt fyrir þann stærsta. Rennslismælingar sýna að hámark hlaupsins úr Grímsvötnum var fyrir hádegi í gær og síðan þá hefur dregið heldur úr rennslinu niðri í Gígjukvísl.