Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Illræmdur FARC liði sagður fallinn í valinn

epa04706298 Colombian Army soldiers guard the area where an alleged FARC guerrilla attack on 14 April left 11 people dead, in Timba, Colombia, 15 April 2015. Colombian President Juan Manuel Santos on 15 April revived airstrikes on rebels of the
 Mynd: EPA - EFE
Fyrrverandi leiðtogi Byltingarhers Kólumbíu, FARC er sagður hafa verið skotinn bana í nágrannaríkinu Venesúela. Tilræðismennirnir eru sagðir vera aðrir uppreisnarmenn.

Nokkur dagblöð í Kólumbíu hafa eftir leyniþjónustumönnum beggja ríkjanna að setið hafi verið fyrir Hernan Dario Velasquez í Apurahéraði nærri landamærunum.

Velasquez sem hafði viðurnefnið El Paisa eða Sveitamaðurinn þótti ógnvænlegur mjög meðan hann stýrði einvalaliði skæruliða FARC en hann yfirgaf samtökin tveimur árum eftir að þau gerðu friðarsamkomulag við kólumbísk stjórnvöld árið 2016.

Velasquez var fylgjandi samkomulaginu en var alræmdur fyrir tilræði sín, meðal annars bílsprengjuárás í Bogota höfuðborg Kólumbíu árið 2003. Þar fórust 36 og tugir særðust.

Hann tilkynnti árið 2019 að hann hygðist grípa til vopna að nýju. Um 13 þúsund skæruliðar hafa lagt niður vopn sín frá undirritun friðarsamkomulagsins og nú er FARC stjórnmálaflokkur í stjórnandstöðu.

Ofbeldi viðgengst þó enn víðsvegar um landið þar sem hópar uppreisnarmanna sem viðurkenna ekki samkomulagið heyja blóðuga bardaga innbyrðis eða við herþjálfað borgaralegt lið og flokka eiturlyfjasala.

Hvorki ríkisstjórn Kólumbíu né Venesúela hafa staðfest fregnir af alli Velasquez. Kólumbíumenn hafa iðulega ásakað nágranna sína um að skjóta skjólshúsi yfir skæruliða en stjórnin í Caracas neitar því staðfastlega.