Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hanna nýja evruseðla í fyrsta sinn

06.12.2021 - 23:14
epa08656288 (FILE) - European Central Bank (ECB) President Christine Lagarde signs the new 20 Euro banknote in Frankfurt am Main, Germany, 27 November 2019 (reissued 09 September 2020). The ECB Governing Council will hold a monetary policy meeting on 10 September.  EPA-EFE/ARMANDO BABANI
 Mynd: EPA
Evrópski seðlabankinn ætlar að velja nýja hönnun fyrir evruseðla fyrir árið 2024. Þetta verður fyrsta heildræna endurskoðunin á hönnun seðlanna frá fyrstu útgáfu þeirra árið 2002.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Christine Lagarde seðlabankastjóri sendi frá sér í dag.

Skýr eftirspurn

„Eftir tuttugu ár er nú kominn tími til þess að ráðast í endurskoðun á útliti seðlanna [...] Seðlarnir eru skýr og áþreifanleg birtingarmynd Evrópusamstarfsins og nú á krísutímum er enn skýr eftirspurn eftir þeim,“ sagði Lagarde í yfirlýsingunni.

Eins og stendur er grundvallarþemað í hönnun seðlanna „öld og stíll“, eins og segir í yfirlýsingunni, og má sjá glugga, dyr og brýr á pappírnum.

Leita álits almennings

Til stendur að setja saman rýnihópa til þess að safna upplýsingum um smekk íbúa ríkja Evrópusambandsins og þannig ákveða hvaða þema verður fyrir valinu fyrir nýju seðlana. 

Að því loknu verður skipaður ráðgjafahópur með einum sérfróðum fulltrúa frá hverju aðildarríki. Þessi hópur kemur sér saman um nokkur ásættanleg þemu og bankinn mun svo kalla eftir skoðun almennings á þeim þemum sem sérfræðingunum þótti ákjósanlegust.

„Þetta er í fyrsta skipti síðan við endurskoðum þemu og hönnun evruseðlana. Áður höfðum við lífgað upp á hönnunina til þess að rýma fyrir nýjum öryggiseiginleikum,“ sagði upplýsingafulltrúi bankans í svari við fyrirspurn Euronews.

Allir verði stoltir

Fabio Panetta, stjórnarmaður hjá bankanum, sagði í yfirlýsingu að markmiðið sé að allir Evrópubúar geti verið stoltir af nýju seðlunum.

„Samhliða þessari endurhönnun munum við halda áfram rannsókn á stafrænni evru. Þessi verkefni falla bæði undir þá skyldu okkar að sjá Evrópubúum fyrir öruggum gjaldmiðli,“ sagði Panetta.

Þórgnýr Einar Albertsson