Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Forseti IHF svarar gagnrýni á HM kvenna

epa05709069 International Handball Federation (IHF) President Hassan Moustafa attends a press conference on the eve of the first match of the IHF Men's Handball World Championship, Paris, France, 10 January 2017.  EPA/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA

Forseti IHF svarar gagnrýni á HM kvenna

06.12.2021 - 12:30
Hassan Moustapha, forseti Alþjóða handboltasambandsins, segir handbolta ekki lengur vera íþrótt sem bara evrópsk lið séu góð í. Hann ver þá ákvörðun IHF að fjölga keppnisþjóðum HM kvenna úr 24 í 32.

Heimsmeistaramótið sem nú stendur yfir á Spáni er hið fyrsta í kvennaflokki þar sem keppnisþjóðirnar eru 32 talsins. Það hefur leitt af sér aukinn fjölda leikja sem enda með stórsigri. 24 af 32 leikjum mótsins til þessa hafa endað með að minnsta kosti 10 marka sigri. Í gær kom svo stærsti sigur mótsins til þessa þegar Holland vann Úsbekistan 58-17, en hollenska liðið vann líka risasigur á Púertó Ríkó, 55-15.

Þetta telja margir vera afleita þróun og ekki gera íþróttinni gott. Það er þvert á það sem Moustapha og IHF telja.

„Þegar ég byrjaði sem forseti árið 2000 var handbolti aðallega sterkur í Evrópu. Við mynduðum áætlum um að auka útbreiðslu íþróttarinnar. Nú eru lið frá öllum heimsálfum sterk,“ segir Moustapha í viðtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2.

„Það er mikilvægt að við hjálpum og styðjum handboltafjölskylduna til að þróast um allan heim. Það er okkar verkefni sem alþjóðasamband. Öll lið byrja smátt og vaxa svo. Það gefur þeim aukin vaxtarfæri að mæta sterkustu liðunum,“ bætir hann við.

Evrópskir yfirburðir

Sögulega séð eru evrópsk landslið langsterkust í handbolta. Aðeins tvívegis hafa lið utan Evrópu unnið stórmót í kvennaflokki; Suður-Kórea 1995 og Brasilía 2013. Í karlaflokki hefur það aldrei gerst.

Moustapha notar Brasilíu sem dæmi um velheppnaða útbreiðslu íþróttarinnar. Brasilíska liðið tapaði öllum leikjum sínum stórt á fyrstu tveimur heimsmeistaramótunum sem liðið keppti á og varð neðst. Það var 1995 og 1997 en síðan fór landið að rísa og 2013 varð Brasilía heimsmeistari.

Moustapha segir það þó ekki greipt í stein að alltaf verði 32 lið á HM. Hann vill þó ekki hverfa aftur til tíma A- og B-keppna.

„Nei, það reyndum við og það gekk ekki. Eitt get ég þó staðfest og það er að eftir HM metum við kosti og galla stækkunarinnar. Svo skoðum við með okkar fólki hvort við höldum áfram með 32-liða mót.“

Tengdar fréttir

Handbolti

Risasigur Noregs - heimsmet hjá Hollandi