Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dramatískur og langþráður sigur Everton

epa09626271 Richarlison of Everton celebrates scoring the opening goal that later was disallowed by VAR during the English Premier League soccer match between Everton FC and Arsenal FC in Liverpool, Britain, 06 December 2021.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Dramatískur og langþráður sigur Everton

06.12.2021 - 22:02
Eftir átta leiki í röð án sigurs vann Everton loksins fótboltaleik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Everton vann dramatískan sigur á Arsenal, 2-1, þar sem Richarlison skoraði þrjú mörk fyrir Everton en tvö þeirra voru dæmd af.

Myndbandsdómarar (VAR) dæmdu bæði mörkin af vegna rangstöðu á sjónarmun. Fyrst á 43. mínútu í stöðunni 0-0. Á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Martin Odegaard og kom Arsenal yfir, 1-0. Richarlison hélt svo að hann hefði jafnað þegar hann skoraði aftur á 60. mínútu en aftur dæmdi VAR afar nauma rangstöðu á Brasilíumanninn.

Everton hafði ekki tekist að vinna sigur síðan 25. september og heimamenn sóttu án afláts. Það bar árangur á 79. mínútu þegar Richarlison skoraði loksins mark sem var ekki dæmt af og jafnaði leikinn í 1-1.

Áfram sóttu heimamenn stíft til að næla í langþráðan sigur og á annarri mínútu í uppbótartíma skoraði Demarai Gray dramatískt sigurmark Everton og lokatölur 2-1. Sjö mínútum var bætt við í uppbótartíma og Pierre Emerick Aubameyang fékk dauðafæri til að jafna fyrir Arsenal í bláloki en skot hans fór fram hjá.

Með sigrinum fór Everton úr 16. sæti upp í það tólfta með 18 stig en Arsenal í 7. sæti með 23 stig. Arsenal fór þar á mis við tækifæri á að komast í eins stigs nálægð við 4. sætið, meistaradeildarsæti.