Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Boðar hertar sóttvarnir í Noregi

epa09523458 Norwegian Minister of Health and Care Services Ingvild Kjerkol (Labor Party) and Foreign Minister Anniken Scharning Huitfeldt (Labor Party) at Slottsplassen after the change of government in Oslo, Norway, 14 October 2021. Norway's new cabinet took office on the day after the designated prime minister presented a center-left minority government.  EPA-EFE/HEIKO JUNGE NORWAY OUT
Ingvild Kjærkol, heilbrigðisráðherra Noregs, kynnir nýjar aðgerðir í kvöld Mynd: EPA-EFE - NTB
Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs, kynnir á morgun hertar sóttvarnaaðgerðir vegna fjölgunar kórónuveirusmita að undanförnu. Hún segir í viðtali við norska ríkisútvarpið að þetta verði aðgerðir sem landsmenn eigi eftir að finna fyrir í daglegu lífi.

Að  sögn Kjerkol gengur heldur ekki sem skyldi að manna stöður í hluta heilbrigðiskerfisins og við sýnatökur og því þurfi að herða reglurnar. Fólk smitist í auknum mæli af delta-afbrigði kórónuveirunnar og nú blasi við að omíkron- afbrigðið eigi eftir að dreifa sér með miklum hraða á næstunni.

Alls greindust 2.576 ný smit í Noregi í gær; 855 fleiri en á laugardag. Að sögn heilbrigðisyfirvalda fjölgar smitum hratt um þessar mundir. 295 eru á sjúkrahúsi. Þar af eru 82 alvarlega veikir. Þeim fækkar sem orðnir eru 75 ára og eldri og þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Einnig benda tölulegar upplýsingar til þess að örvunarskammtar gegn veirunni séu að virka.

Rúmlega sjö hundruð þúsund Norðmenn hafa fengið örvunarskammt. Það eru um það bil þrettán prósent þeirra sem orðnir eru átján ára og eldri. Hátt í áttatíu prósent þjóðarinnar hafa verið bólusett gegn veirunni.