Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Barnabætur skerðist við of lágar tekjur

06.12.2021 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Barnafjölskyldur á Íslandi hljóta minni fjárhagslegan stuðning en í flestum vestrænum hagsældarríkjum. Þetta sýna ný gögn frá OECD sem birt voru í Kjarafréttum Eflingar í dag. Stefán Ólafsson, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum, greinir frá að skerðingar barnabóta hérlendis miðist við of lágar tekjur.

„Ísland er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna og hin Norðurlöndin eru með mun ríflegri barnabætur fyrir fjölskyldur með lágar tekjur. Hér byrja skerðingar barnabóta við lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem er óvenju lágt. Fáir foreldrar fá því óskertar barnabætur“ segir Stefán.

Barnabætur segir hann vera mikilvægan þátt í kjörum fjölskyldna, og þá sérstaklega hjá þeim tekjulægri. Þá sé víðast hvar litið á barnabætur sem nauðsynlega búbót þegar byrðin er sem mest vegna húsnæðisöflunar og barneigna. Því skjóti það skökku við að skerða bæturnar eins mikið og raunin er á Íslandi.

Barnabætur eru ekki styrkur

„Barnabætur eru ekki styrkur til barnafólks heldur tilfærsla milli tímabila á lífshlaupinu. Fólk fær barnabætur á fyrri hluta starfsferils þegar þörfin er mest en þegar börnin eru farin að heiman þá greiðir fólk hærri skatta til að fjármagna barnabætur til næstu kynslóðar á eftir“ segir Stefán.

Hér að neðan má sjá hvar Ísland stendur miðað við önnur vestræn ríki og norðurlöndin, þegar kemur að barnabótum til einstæðra foreldra sem eru nærri lágmarkslaunum.

Skerðingar hefjist við meðallaun fremur en lágmarkslaun

Óskertar barnabætur með fyrsta barni eru 19.500 krónur á mánuði fyrir hjón, en 32.550 fyrir einstæða foreldra. Þó grunn upphæðin þyki ekki sérlega lág miðað við önnur lönd, liggur munurinn í skerðingum bótanna. Á Íslandi eru bæturnar skertar strax við lágmarkslaun á vinnumarkaði, eða um 351.000 krónur á mánuði. Af þeim sökum eru það mjög fáir fullvinnandi einstaklingar sem hljóta óskertar bætur. Stefán telur æskilegra að skerðingar hæfust nær meðallaunum vinnumarkaðar.

Eina norræna landið, fyrir utan Ísland, sem skerðir bæturnar vegna tekna er Danmörk. Í Danmörku hefjast skerðingar hins vegar ekki fyrr en við um 1,3 milljónir króna á mánuði. Skerðingarhlutfallið þar er um 2%, en það er á bilinu 4-9,5% hérlendis. 

„Ísland býr því við mun lakara barnabótakerfi en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum og framfærslubyrði barnafólks er því að öðru jöfnu meiri á Íslandi“ segir Stefán.

Fjárlögin bæti ekki nægilega í

Í grein Kjarafrétta segir að stuðningur við heimilin hafi minnkað verulega frá árinu 2013 og sé nú með minnsta móti. „Stuðningur stjórnvalda við fjölskyldur vinnandi fólks, í formi barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta, var almennt mun meiri á árabilinu 1988 til 1996 en er nú á dögum“ segir Stefán.

Í nýjum fjárlögum eru kynntar hækkanir barnabóta, sem Stefán telur ekki duga til þess að halda í hækkandi útgjöld.

„Þetta eru því í raun breytingar sem fyrst og fremst fela í sér hækkun að hluta í samræmi við verðlag og launaþróun, en óskert upphæð barnabótanna hefur ekki verið verðbætt frá árinu 2019. Fjárhæðir barnabóta hækka á bilinu 5,5% til 5,8% en hefðu þurft að hækka um rúmlega 10% til að halda verðgildi sínu frá 2019. Lægri skerðingarmörk verða áfram jöfn lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Þetta felur því ekki í sér kjarabætur fyrir barnafjölskyldur sem neinu nemur“ segir Stefán.