Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkin sniðganga Ólympíuleikana að hluta

06.12.2021 - 21:04
epa09614042 The 2022 Beijing Winter Olympic emblem is seen next to the headquarters of the 2022 Beijing Winter Olympics organising committee, at the Shougang Industrial Park, which will be used as a venue for hosting sport and other events during Beijing 2022 Winter Olympics, in Beijing, China, 01 December 2021. According to China's epidemiologist experts, the new Omicron COVID-19 variant, which poses a high risk globally, at this moment wouldn't have a strong impact on China, which is scheduled in two months to host The 2022 Beijing Winter Olympics followed by the Paralympics.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn ætlar ekki að senda erindreka og embættismenn á Vetrarólympíuleikana sem fram fara í Peking, höfuðborg Kína, á næsta ári. Þetta sagði upplýsingafulltrúi Joes Biden forseta á fréttamannafundi.

Þjóðarmorð og mannréttindabrot

„Ríkisstjórn Bidens mun ekki senda erindreka né neina opinbera starfsmenn á leikana vegna áframhaldandi þjóðarmorðs og glæpa gegn mannkyninu í Xinjiang-héraði sem og vegna annara mannréttindabrota,“ sagði Jen Psaki upplýsingafulltrúi.

Fjöldi þingmanna hefur hvatt til sniðgöngu síðustu vikur. Bæði til þess að erindrekar verði ekki sendir sem og til algerrar sniðgöngu. Nú liggur fyrir að íþróttamenn verða sendir á leikana. „Bandarískir íþróttamenn njóta fulls stuðnings okkar og við munum styðja þá að heiman,“ sagði Psaki.

Kínverjar ætla að svara fyrir sig

Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði umræðuna um sniðgöngu á villigötum fyrr í dag. Henni þyrfti að linna því hún hefði slæm áhrif á samband ríkjanna. „Ef Bandaríkin halda áfram á þessari leið mun Kína grípa til mótvægisaðgerða.“

Sniðgangan nú er ekki jafnumfangsmikil og árið 1980 þegar Bandaríkin sendu enga keppendur á Ólympíuleikana í Moskvu vegna innrásar Sovétríkjanna í Afganistan. Því svöruðu Sovétríkin fjórum árum síðar með því að senda enga íþróttamenn á Ólympíuleikana í Los Angeles.

Bandaríkin halda Ólympíuleika árið 2028 og óljóst er hvort Kínverjar muni svara sniðgöngunni nú með sambærilegum aðgerðum þá.

Þórgnýr Einar Albertsson