Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill skýringar á upplýsingaskorti í skýrslu um útgerðir

05.12.2021 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, krefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svara um hvers vegna engar upplýsingar er að finna um fjárfestingar einstakra útgerða og tengdra félaga í skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins sem unnin var að hennar beiðni. Alþingi samþykkti síðasta vetur skýrslubeiðni Hönnu Katrínar um að tekin yrði saman skýrsla um eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku viðskiptalífi en skýrslan sætti að lokum harðri gagnrýni.

Hanna Katrín hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi vegna skýrslunnar. Eftir kosningar og breytingar í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar kemur það í hlut Svandísar Svavarsdóttur að svara fyrir ákvarðanir um skýrsluna sem teknar voru í ráðherratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs.

Hanna Katrín spyr hvað hafi legið að baki þeirri ákvörðun að fella út upplýsingar um fjárfestingar hvers útgerðarfélags og tengdra félaga sem hafi mátt finna í skýrsludrögum sem ríkisskattstjóri sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í júlí áður en skýrslan var lögð fyrir Alþingi og birt opinberlega. Hanna Katrín spyr Svandísi jafnframt hvers vegna Kristján Þór hafi skilað skýrslunni í þeirri mynd þótt svo að í greinargerð skýrslubeiðninnar væri dregið fram mikilvægi þess að taka saman upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðanna í óskyldum atvinnurekstri. Þá er spurt á hvaða grundvelli ráðherra hafi talið sér óheimilt að birta hluta umbeðinna upplýsinga og hvað skýri miklar tafir á birtingu skýrslunnar eftir að samþykkt var að afmarka tímamörk skýrslubeiðninnar frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Eftir birtingu skýrslunnar var deilt á skort á upplýsingum um eign einstakra sjávarútvegsfyrirtækja sem skýrsluhöfundar skýrðu með því að sú upplýsingagjöf væri óheimil út frá persónuverndarlögum. Persónuvernd benti á, opinberlega og í erindi til ráðuneytisins, að þetta væri rangt og ekki hægt að vísa til ákvarðana Persónuverndar um þetta atriði. Staðgengill forstjóra Persónuverndar sagði skýrsluhöfunda hafa túlkað persónuverndarlög og úrskurði Persónuverndar rangt og ekki borið það undir Persónuvernd. Samkvæmt því hefði ekkert komið í veg fyrir að birta mætti upplýsingar um eignir útgerðanna.